Draugaskip rekur í átt til Íslands

Lyubov Orlova var smíðað í Júgóslavíu árið 1976 og var …
Lyubov Orlova var smíðað í Júgóslavíu árið 1976 og var notað sem skemmtiferðaskip á norður- og suðurskautinu. AFP

Landhelgisgæslan segir að engin leið sé að vita hvar draugaskipið Lyubov Orlova sé staðsett fyrr en sjónræn staðfesting fáist. Skipið rekur nú mannlaust í áttina að íslensku efnahagslögsögunni. Gæslan segir að ýmsar getgátur séu um staðsetningu skipsins sem byggðar séu á gervitunglamyndum.

Lyubov Orlova er 4.000 tonna skemmtiferðaskip sem rekur nú mannlaust norðaustur- eða austur af Flæmska Hattinum, að því er segir á vef LHG.

Skipið, sem er 100 metra langt, var skilið eftir austur af Nýfundnalandi undir lok janúar með ferilvöktunarbúnað í gangi svo hægt yrði að fylgjast með reki þess en staðsetningar hættu að berast frá  búnaðinum í byrjun febrúar.

„Í sl. viku var talið að rek skipsins væri um 1-2 sjómílur á klst. til norðausturs og var LHG þar með ljóst að ef svo héldi áfram mundi skipið reka inn í leitar og björgunarsvæði Íslands og síðar íslensku efnahagslögsöguna á innan við mánuði,“ segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Fram hefur komið á mbl.is, að enginn vilji kannast við að bera ábyrgð á skipinu. Frönsk umhverfisverndarsamtök hafa varað við því að af því stafi mikil hætta gagnvart umhverfinu sökkvi skipið eða lendi það í árekstri.

Líkt og fram hefur komið á mbl.is slitnaði skipið aftan úr dráttarbát sem var að draga það í brotajárn frá St. Johns á Nýfundnalandi áleiðis til Dóminíska lýðveldisins.

Hefur þú séð Lyubov Orlova?

Umhverfishætta af stjórnlausu skipi í Atlantshafi

Yfirgefna skemmtiferðaskipið fundið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert