„Eins og tappi tekinn úr baðkari“

Lífið er nú að komast í að færast í sinn …
Lífið er nú að komast í að færast í sinn vanagang á Auðsholtsbæjunum í Hrunamannahreppi, en fólkið þar var teppt heima vegna flóðs í Hvítá sem fór yfir veginn heim að bæjunum. Morgunblaðið/Helgi Bjarnason

Lífið er nú að færast í sinn vanagang á Auðsholtsbæjunum í Hrunamannahreppi, en fólkið var teppt heima vegna flóðs í Hvítá sem fór yfir veginn heim að bæjunum. „Þetta var nokkuð venjulegur dagur í dag,“ segir Íris Brynja Georgsdóttir, bóndi í Auðsholti 4 og segir lífið óðum vera að komast í samt horf eftir ástand undanfarinna daga.

„Það var orðið nokkuð vel fært um tíu leytið í morgun,“ segir Íris. Hún segir eitthvað af girðingum hafa skemmst, en þau eigi eftir að fara betur yfir svæðið. „Það er ennþá hátt í ánni þó hún flæði ekki lengur yfir veginn, þá er hún yfir mýrunum og hluta af túnunum. Annars sjatnar vatnið ótrúlega fljótt, þetta er allt á leiðinni til baka. Þetta er eins og þegar tappi er tekinn úr baðkari.“

Um tíma leit út fyrir að Hjónaballinu fræga, sem haldið hefur verið í hreppnum í 70 ár, frá árinu 1943, væri stefnt í voða vegna vatnavaxtanna. En nú hefur ræst úr, stífar æfingar standa yfir og ballið verður haldið næstkomandi laugardagskvöld eins og til stóð. „Við tökum bara langar æfingar núna fram að Hjónaballi,“ segir Íris.

Frétt mbl.is: 22 íbúar í Auðsholti urðu innlyksa

mbl.is