Fólk beðið að halda sig heima

Frá Ártúnsbrekkunni en öll umferð er stopp þar vegna óveðurs …
Frá Ártúnsbrekkunni en öll umferð er stopp þar vegna óveðurs og árekstra mbl.is/Eyrún

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður fólk að halda sig heima þar til veðri slotar þar sem ekkert ferðaveður er á svæðinu. Skyggni ekkert og allt meira og minna stopp í borginni.

Suðurlandsvegur er lokaður við Olís í Norðlingaholti, verið er að skoða lokanir á Vesturlandsvegi við Þingvallaveg.

Strætó hefur hætt akstri í austasta hluta höfuðborgarsvæðisins en samkvæmt upplýsingum frá farþegum sem hafa setið fastir í strætóum í Ártúnsbrekkunni er verið að snúa strætisvögnum þar við þar sem ekki er mögulegt að komast lengra.

Vegna slæmrar færðar og veðurs má búast við miklum seinkunum á öllum leiðum strætó á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Vatnsendahverfið er ófært eins og stendur. Vallahverfið í Hafnarfirði er ófært sem stendur. Norðlingaholt er ófært sem stendur. Mosfellsbær er ófær sem stendur. Grafarholt er ófært sem stendur. Grafarvogur er ófær sem stendur og Árbæjarhverfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert