Öskubylur á Klaustri

Öskurok undir Eyjafjöllum.
Öskurok undir Eyjafjöllum. mbl.is/RAX

„Hér hefur verið öskubylur, en það er enginn snjór,“ segir Guðmundur Óli Sigurgeirsson, kennari á Kirkjubæjarklaustri. Hann segir að í Eldhrauni hafi verið svo blint vegna öskuroks í morgun að ekki hafi sést á milli stika á veginum.

Aska hefur angrað íbúa á Suðurlandi öðru hverju síðan gaus í Eyjafjallajökli. Ástandið var óvenjulega slæmt í morgun, en ástæðan er þurr og snjólaus jörð samhliða mjög hvössu veðri.

„Við höfum ekki séð svona öskubyl nokkuð lengi. Það eru farin að safnast öskudrög heim að húsum og maður sér ösku í grassverði, sem maður hefur ekki séð lengi,“ segir Guðmundur.

Öskumistur er víða á Suðurlandi, m.a. á Hvolsvelli og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur. Öskubylur er í Mýrdalnum og víðar í V-Skaftafellssýslu.

Vindmælirinn fauk

Gríðarlega hvasst hefur verið undir Eyjafjöllum í morgun. Vindhviður á sjálfvirkum mæli á Hvammi undir Eyjafjöllum fór upp fyrir 50 m/sek í morgun. Svo virðist sem vindurinn hafi skemmt vindmælinn því eftir kl. 8 í morgun hefur mælirinn sýnt logn.

Rafmagnstruflanir hafa verið í V-Skaftafellssýslu í morgun. Ástæðan er útleysing í línu milli Sigöldu og Hóla. Í kjölfarið leystu kerfisvarnir út teinatengið í Blöndu. Rafmagnslaust varð við þetta í Vestur-Skaftafellssýslu út frá tengivirkinu á Prestbakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert