Finnst framtíðin oft vonlaus

Nær helmingi unglingsstúlkna sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi finnst framtíðin oft eða nær alltaf vera vonlaus. Meira en fjórum sinnum líklegra er að unglingsdrengir sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi hafi neytt kannabisefna en drengir sem ekki hafa orðið fyrir sömu reynslu.

Þetta kemur m.a. fram í ítarlegri skýrslu UNICEF sem kom út í morgun, Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir.

Vísbendingar eru um að kynferðislegt ofbeldi hafi meiri áhrif til langs tíma á þá sem verða fyrir því sem börn en aðra. Um 45% þeirra sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi á barnsaldri og leituðu til Stígamóta á þriggja ára tímabili höfðu íhugað sjálfsvíg, samanborið við 26% þeirra sem brotið var á eftir 18 ára aldur.

Enn fremur var tvöfalt líklegra að þeir fyrrnefndu hefðu skaðað sjálfa sig og mun fleiri þeirra voru með lélega sjálfsmynd – nær 90%. Einnig má nefna að í tölfræðigreiningunni fyrir UNICEF kom í ljós að rúmlega helmingur kynferðisbrota sem framin voru á börnum sem komu í Barnahús á 11 árum flokkast sem „mjög gróf“.

Aðgerðir vegna vanrækslu ættu að vera mun meiri

Önnur birtingarmynd ofbeldis er einelti. Þegar gögn voru greind sem Skólapúlsinn hefur safnað kom meðal annars í ljós að rúm 40% þeirra sem verða fyrir miklu einelti sýna sterk einkenni vanlíðanar og kvíða en það á við um sárafáa þeirra sem verða fyrir litlu eða engu einelti. Enn önnur birtingarmynd ofbeldis er vanræksla. Í skýrslu UNICEF kemur fram að miðað við umfang vanrækslu og alvarlegar afleiðingar hennar ættu umfjöllun, umræða og aðgerðir vegna vanrækslu að vera miklu meiri.

 Forsætisráðherra, velferðaráðherra, innanríkisráðherra og mennta-og menningarmálaráðherra verða kynntar niðurstöður skýrslunnar á fundi í Ráðherrabústaðnum eftir hádegi í dag. Ungmenni sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi og skipuðu sérfræðihóp barna fyrir skýrsluna munu auk þess ræða við ráðherrana og kynna eigin tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir ofbeldi gegn börnum.

Grafalvarlegt mál

 „Það sem gögnin sýna er að skýr tengsl eru á milli andlegrar vanlíðan og þess að hafa orðið fyrir ofbeldi – hvort sem það er heimilisofbeldi, einelti, kynferðislegt ofbeldi eða annað. Börn sem orðið hafa fyrir þessu ofbeldi eru meira einmana en hin, sýna frekar áhættuhegðun, líður verr í skólanum og finnst framtíðin dekkri. Þetta er grafalvarlegt mál og kallar á skýr viðbrögð samfélagsins,“ er haft eftir Stefáni Inga Stefánssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í fréttatilkynninu.

 Stefán bendir á að tölfræðigögn eins og þau sem birtist í skýrslu UNICEF eigi að vera ómissandi þáttur í markvissri og skilvirkri stefnumótun í baráttunni gegn ofbeldi. Til að mögulegt sé að hafa raunveruleg áhrif í málaflokkinum þurfi að fylgjast vandlega með þróun og áhrifum ofbeldis.

 „Það kann að sæta furðu að öll þau gögn sem skýrslan byggir á lágu fyrir þegar vinna við hana hófst. Allar tölurnar voru til. Þær höfðu einfaldlega ekki verið skoðaðar með þeim hætti sem hér er gert. Staðan er sú að mikið magn upplýsinga er til staðar hjá ýmsum stofnunum í samfélaginu en þær eru ekki greindar með skipulögðum hætti. Það hlýtur að vera yfirvalda að kalla eftir gögnum og safna þeim markvisst saman,“ er haft eftir Stefáni.

Barátta til lengri tíma

Í skýrslu UNICEF er að finna sextán tillögur um leiðir til að minnka ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Þær eru byggðar á viðamikilli fundaröð sem haldin var með þátttöku fjölmargra fagaðila sem vinna með og fyrir börn. Meðal þess sem lagt er til er að komið verði á fót sérstöku Ofbeldisvarnaráði og að réttindafræðsla í gegnum menntakerfið verði markvissari, bæði til barnanna sjálfra og þeirra sem vinna með þeim. Almenningur er hvattur til að kynna sér tillögurnar í heild sinni á heimasíðunni www.unicef.is.

UNICEF hvetur stjórnvöld til að halda áfram, stórauka við aðgerðir sínar og sjá markvissa baráttu gegn hvers kyns ofbeldi sem hluta af langtímastefnumótun. Tímabundin átaksverkefni taka enda en forvarnir þurfa að vera til staðar til frambúðar.

Frétt mbl.is: Fjöldi barna er beittur ofbeldi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert