„Fólki blöskrar“

Ljósmyndin sem var tekin af útstillingarglugga Benetton í dag.
Ljósmyndin sem var tekin af útstillingarglugga Benetton í dag.

Mikil umræða hefur farið fram á Facebook um ljósmynd sem var tekin af útstillingarglugga verslunar United Colors of Benetton í Kringlunni í dag. Þar sést mynd af ungri nakinni stúlku með textanum „The Essentials of Life.... Jeans“. Sá sem tók myndina í verslunarmiðstöðinni segir að sér hafi blöskrað.

„Mér fannst þetta ósmekklegt,“ segir ljósmyndarinn í samtali við mbl.is, en hann vildi ekki koma fram undir nafni.

Á myndinni, sem fylgir fréttinni, má sjá nakta þeldökka stúlku sem heldur fyrir kynfærin en hár hylur brjóst hennar.

Ljósmyndarinn segist hafa birt myndina á Facebook til að sjá hvað öðrum fyndist um Benetton-auglýsinguna. „Já, til að fá viðbrögð frá fólki í kringum mig til að sjá hvort ég væri einn um að þykja þetta mjög ósmekklegt,“ segir hann og bætir við að viðbrögðin hafi ekki látið á sér standa. „Fólki blöskrar greinilega.“

Aðspurður segist hann ekki hafa sett sig í samband við verslunareigendur en honum þykir  réttast að þeir láti fjarlægja auglýsinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina