Námslánafrumvarp fái forgang

mbl.is/Hjörtur

Samband evrópskra stúdenta (ESU) hvetur Alþingi til að veita nýju frumvarpi um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna forgang.

Í fréttatilkynningu kemur fram að verði frumvarpið að lögum mun stúdentum bjóðast að breyta allt að 25 prósentum af námslánum sínum í námsstyrki að því gefnu að þeir ljúki námi innan tilsettra tímamarka. „Tillagan er mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir íslenska nemendur sem margir hverjir treysta á námslán til að sjá fyrir sér á meðan námstíma þeirra stendur. Einstaklingar geta að hámarki fengið 1,256 milljónir á ári í námslán eða um 3,9 milljónir á þremur árum. Því má áætla að þeir stúdentar sem nýti sér þetta úrræði skuldi að jafnaði um þrjár milljónir króna við útskrift,“ segir í tilkynningunni.

Ísland gæti sett fordæmi í Evrópu

 Í morgun var málið tekið til fyrstu umræðu á Alþingi. ESU hvetur Alþingi til að afgreiða málið eins fljótt og auðið er þar sem þinglok eru áætluð föstudaginn 15. mars og kosið verður til Alþingis í apríl.

 „Það er gott að hugsa til þess að Ísland vilji fara þessa leið þegar dregur almennt úr stuðningi við stúdenta í Evrópu. Ísland gæti sett gott fordæmi og orðið leiðandi fyrir önnur Evrópuríki í háskólasamfélaginu,“ segir Karina Ufert, formaður ESU, í tilkynningunni.

 ESU styður málstað Stúdentaráðs Háskóla Íslands og telur að þessar breytingar yrðu jákvætt og rökrétt skref í háskólamenntun á Íslandi þar sem þær myndu jafna aðgang allra samfélagshópa að menntakerfinu og fjarlægja að hluta til þá skuldabyrði sem stúdentar eiga við að námi loknu.

 „Við getum borið saman Ísland og Danmörku, þar sem ríkisstjórnin kynnti nýverið hugmyndir sínar um meiriháttar niðurskurð til styrkjakerfis stúdenta og velferðarkerfisins. Ísland getur sýnt Evrópu að það sé hægt að fjárfesta í menntun, en íslenskir stúdentar treysta enn á að Alþingi taki af skarið og samþykki styrkinn áður en kjörtímabilinu lýkur,“ er ennfremur haft eftir Ufert í tilkynningunni.

Evrópskir stúdentar sýna stuðning í verki

 Evrópskir stúdentar hafa verið hvattir til að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við íslenska háskólanema og senda til allra ráðherra og alþingismanna.

 „Evrópskir stúdentar þurfa að standa saman til að hvetja yfirvöld til að auka opinberar fjárfestingar á háskólastigi,“ undirstrikar Ufert. 

mbl.is