Lóan er komin

Þessi lóa var við Útskálakirkju í Garði í dag.
Þessi lóa var við Útskálakirkju í Garði í dag. Ljósmynd/Bjarni Sæmundsson

Bjarni Sæmundsson, fuglaáhugamaður í Keflavík, kom auga á lóu við Útskálakirkju í Garði í dag. Lóan er um hálfum mánuði fyrr á ferðinni en í venjulegu ári.

„Lóan var að éta orma á fullu. Hún var greinilega svöng eftir flugið,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í kvöld.

Fuglaskoðun er helsta áhugamál Bjarna og fer hann fjóra daga í viku í ferðir meðfram ströndinni á Reykjanesskaga til að skoða fugla og taka myndir af fuglum. Hann heldur úti fuglavef þar sem skoða má myndir sem hann hefur tekið af fuglum.

Lóan á myndinni er enn í vetrarbúningi. Vetrarheimkynni heiðlóunnar eru einkum meðfram ströndum V-Evrópu, frá Norðursjó suður til Portúgal en einnig við Miðjarðarhaf, Kaspíahaf og norðanverða Afríku, að því er segir í grein eftir Guðmund A. Guðmundsson líffræðing á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Lóan kemur að jafnaði til landsins í kringum 25. mars. Árið 2005 sást hún hér á landi 20. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert