Rúmlega hálf milljón páskaeggja

„Það er framleitt hér fram á síðasta dag,“ segir Auðjón Guðmundsson, starfsmaður sælgætisgerðarinnar Nóa Síríusar, en þessa dagana streyma páskaeggin í búðirnar og glæsilegar súkkulaðistæður blasa við viðskiptavinum verslana.

Að sögn Auðjóns hefst framleiðslan strax eftir áramótin og síðustu vikurnar fyrir páska er nánast unnið dag og nótt. Sérstakt teymi sér um gerð páskaeggjanna, líkt og konfektsins fyrir jólin. „Þetta er fólk með mikla reynslu,“ segir Auðjón. „Við fáum fyrirspurnir strax eftir jólin,“ segir Auðjón. Minnstu eggin fara fyrst í sölu og stærri fylgja síðan í kjölfarið þegar nær dregur páskum.

Sífellt fleiri egg til útlanda

Það færist sífellt í vöxt að viðskiptavinir kaupi egg og taki með sér til vina og ættingja erlendis. Aðspurður segir Auðjón að eggin komist ekki alltaf í heilu lagi á áfangastað ef þau eru send með póstinum og töluvert er um að þau séu opnuð í tollinum til að kanna innihaldið. Auðjón segi að langmesta salan sé í gegnum verslanirnar og standa starfsmenn Nóa Síríus í ströngu við að fylla á birgðirnar í verslunum fram á páskadag. Um 600.000 páskaegg, bæði stór og smá, eru framleidd hjá fyrirtækinu í ár.

Auðjón segir að af og til komi beiðnir frá viðskiptavinum um sérstakar óskir varðandi eggin. Fyrirtæki kaupi oft sérmerkta toppa fyrir starfsfólkið og komi jafnvel skemmtilegum skilaboðum inn í eggin eða öðruvísi málshætti. Í ár setti fyrirtækið þrjár nýjar gerðir af eggjum á markað, svokölluð Nizza egg. Þau er hægt að fá með lakkrís, karamellum og súkkulaðiperlum. Síðustu ár hefur fyrirtækið sett ýmsar nýjar tegundir af páskaeggjum á markað, svo sem Pipp og Nóa Kropp páskaegg. „Við fáum mjög margar góðar hugmyndir frá viðskiptavinum, verslunum, birgjum og starfsmönnum innanhúss,“ segir Auðbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert