Hjónum vísað úr landi

Meymuna Asalam Humed og Amar Adem.
Meymuna Asalam Humed og Amar Adem.

Amar Adem og Meymuna Asalam Humed, hjónin frá Erítreu sem Morgunblaðið fjallaði um í dag, voru í dag boðuð á fund í innanríkisráðuneytinu. Þar var þeim tilkynnt að ráðuneytið hefði ekki fallist á ósk þeirra um að fá að dvelja áfram á Íslandi á meðan þau freistuðu þess að fá dómstóla til að fella úr gildi úrskurði þess efnis að þau skyldu endursend á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þau telja að íslensk stjórnvöld eigi að fjalla efnislega um hælisumsóknir þeirra enda sé frestur sem stjórnvöld höfðu til að senda þau til baka liðinn.

Amar og Meymuna komu til landsins í maí 2011 en innanríkisráðuneytið kvað upp úrskurð 18. janúar sl. þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um að endursenda þau var staðfest. 

Árni Helgason hdl., talsmaður hjónanna, segir að á fundinum hafi Meymunu verið gerð grein fyrir því að hún yrði flutt til Frankfurt í Þýskalandi í bítið á morgun. Adem verður fluttur til Belgíu í næstu viku og helgast það af því að yfirvöld þar geta ekki tekið við honum fyrr.

 Á fundinum í ráðuneytinu sagði Meymuna frá því að hún hefði um morguninn tekið óléttupróf og það hefði sýnt að hún er barnshafandi. 

Árni telur að þar með sé komin upp ný staða í málinu, t.d. vegna þess að sjónarmið um fjölskyldusameiningu geti gilt í málinu, eins og t.d. hafi átt við í máli Paul Ramses sumarið 2008. Umsókn hans hafi á endanum fengið efnismeðferð hér á landi. Árni óskaði eftir því við ráðuneytið að brottför hennar yrði frestað á meðan réttarstaða hennar væri könnuð. Á það féllst ráðuneytið ekki.. 

Í gær ók lögregla þeim hjónum á dvalarstað þeirra í Reykjanesbæ og hafði með vökult auga, að sögn Árna. Í málum sem þessum telji lögregla að mikil hætta sé á að hælisleitendur reyni að komast undan.

Viðbrögð Rauða kross Íslands í kvöld.

mbl.is