„Rógburður og haugalygi“ þingmanns

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

„Er engin leið til að fyrir þingið að verja gesti sína fyrir rógburði og haugalygi þingmanna,“ spurði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag og vísaði til ummæla Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, í gærdag.

Við upphaf þingfundar í gær vísaði Guðlaugur Þór til helstu sérfræðinga landsins í skattamálum, sem mættu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gærmorgun. „Þeir upplýstu okkur um það að skattkerfið sé orðið svo flókið að það er orðið sérstakt vandamál í sjálfu sér,“ sagði Guðlaugur Þór og einnig að sérfræðingarnir hefðu upplýst nefndarmenn um það að skattsvik og skattaundanskot hafi stóraukist og „að þeirra tilfinning væri sú að skattar væru orðnir það háir að það væri orðið svona réttlætanlegt að borga þá ekki.“

Björn Valur sagðist á þingi í morgun hafa heyrt þetta og talið forvitnilegt. Hann hafi því sett sig í samband við nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd. „Það kannaðist enginn við að hafa heyrt þetta, þessar fullyrðingar, á nefndarfundinum.“

Þá sagðist hann í kjölfarið hafa sett sig í samband við gesti fundarins, sem voru fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, fjármálaráðuneytinu og ríkisskattstjóra. „Ég lagði fyrir þá spurningu um hvort rétt væri eftir þeim haft. Það er skemmst frá því að segja að enginn staðfesti að þetta væri rétt eftir þeim haft. Þeir hafi ekki haldið þessu fram. [...] Það hefði verið frétt ef ríkisskattstjóri héldi því fram að skattar séu svo háir að það réttlæti undanskot.“

Björn spurði því næst hver væri réttur gesta þingsins sem ekki geti varið sig fyrir „rógburði og haugalygi“ þingmanna. Hann hvatt því næst forseta þingsins til að skoða þessi mál sérstaklega.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, kom einnig í ræðustól og tók undir með Birni Val. Hann sagðist sjálfur hafa verið á fundinum og enginn gesta nefndarinnar hafi sagt að skattar séu svo háir að það sé réttlætanlegt að greiða þá ekki. „Það er grafalvarlegt að leggja gestum orð í munn sem enginn hefur sagt.“

Þá sagði hann það „svakaleg skilaboð“ frá Alþingi að það sé réttlætanlegt að svíkja undan skatti.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is
Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert