Reynt að semja um þinglok

Morgunblaðið/Kristinn

Mikil óvissa ríkir á Alþingi um það hvenær þinglok verða en samkvæmt starfsáætlun Alþingis ættu þau að vera í dag. Tugir mála bíða afgreiðslu í þinginu og eru þau stödd á ýmsum stigum. Sum eiga enn eftir að komast í gegnum fyrstu umræðu og til nefndar. Þar á meðal eru ýmis umdeild mál eins og um stjórn fiskveiða og hvort og þá með hvaða hætti eigi að breyta stjórnarskránni á þessu kjörtímabili.

Samkvæmt heimildum mbl.is standa nú yfir viðræður á milli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, og forvarsmanna stjórnmálaflokkanna á þingi um möguleg þinglok. Ásta Ragnheiður gaf ekki kost á viðtali við mbl.is vegna þess að hún væri „á kafi í viðræðum.“ Þá standa einnig yfir viðræður um mögulega lendingu stjórnarskrármálsins á milli og innan þingflokka stjórnarflokkanna. Ekkert mun þó enn liggja fyrir um hugsanlegan árangur af þessum viðræðum.

Þingmenn sem mbl.is hefur rætt við staðfesta það að mikil óvissa ríki um þinglok. Þannig séu lítil sem engin samskipti í gangi á milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og allt á huldu hvernig og hvenær þingið ljúki störfum. Flest bendir til þess á þessari stundu að þingstörf muni allavega teygja sig fram í næstu viku. Ekki er ósennilegt að fundað verði um helgina.

Hjálpar ekki við lausn málsins

Útspil Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, í stjórnarskrármálinu hefur hleypt því máli í uppnám en hún lagði fram frumvarpið að nýrri stjórnarskrá, eins og meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði gengið frá því, sem breytingartillögu við frumvarp formanna Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar um afmarkaðar breytingar á gildandi stjórnarskrá.

Frumvarp formannanna er lagt fram af Árna Pál Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, en ljóst er að breytingrtillögu Margrétar er beint gegn því auk þess sem ætlunin er að knýja fram atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hún situr í. Árni Páll vildi ekki tjá sig um útspil Margrétar þegar mbl.is óskaði eftir því að öðru leyti en að það hjálpaði ekki við lausn málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert