Tilkynningarskylda um ofbeldi áréttuð í póstkorti

Landsmenn eru hvattir til að taka þátt í að útrýma kynferðislegu ofbeldi gegn börnum með póstkorti sem dreift er á öll heimili um þessar mundir. Með póstkortinu er almenningur minntur á það alvarlega viðfangsefni sem ofbeldi gegn börnum er og þá skyldu fólks að tilkynna barnavernd ef grunur vaknar um að barn búi við ofbeldi eða misnotkun. Hægt er að fá samband við viðeigandi barnaverndarnefnd í gegnum neyðarlínuna í síma 112.

Póstkortið er liður í vitundarvakningu stjórnvalda um kynferðisofbeldi gegn börnum og er undirritað af fjórum ráðherrum: Forsætisráðherra, innanríkisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og velferðarráðherra. Stefán Einarsson, hönnuður hjá Hvíta húsinu, hannaði kortið.

Vitundarvakning um kynferðisofbeldi gegn börnum fer fram í samræmi við samning Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu gegn börnum. Samkvæmt samningnum skal fræðslu um ofbeldi beint að börnum, fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu, réttarvörslukerfinu og að almenningi.

Starfsfólk grunnskóla fékk fræðslu á vel sóttum landshlutaþingum síðastliðið haust og Brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu fer í alla 2. bekki grunnskóla á vegum vitundarvakningarinnar. Með sýningunni og eftirfylgni með henni er leitast við að fræða ung börn um ofbeldi og rétt þeirra til að þurfa ekki að búa við ofbeldi eða ógn um ofbeldi. Stuttmyndin Fáðu já – um mörkin milli ofbeldis og kynlífs er hluti af þessu átaki en hún hefur verið sýnd í öllum 10. bekkjum landsins og velflestum framhaldsskólum. Með myndinni fylgja kennsluleiðbeiningar sem eru um leið fræðsla fyrir fullorðna um mikilvægi umræðu um kynferðisofbeldi.

Innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti standa saman að vitundarvakningunni. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu vitundarvakningarinnar.

mbl.is