Vorkennt í erlendum fjölmiðlum fyrir nauðgunardóm

Skjáskot af myndskeiði CNN þar sem hin umdeildu ummæli féllu
Skjáskot af myndskeiði CNN þar sem hin umdeildu ummæli féllu www.cnn.com

Ma'lik Richmond og Trent Mays voru á sunnudaginn sakfelldir fyrir hrottafengna nauðgun á 16 ára stúlku í Steubenville, Ohio. Umfjöllun erlendra fjölmiðla um málið vakti mikla athygli.

Talskona Druslugöngunnar á Íslandi segir að sem betur fer virðist þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga. 

Í frétt um málið á sjónvarpsstöðinni CNN komst þulur í myndveri svo að orði að „tveir afreksíþróttamenn frá Steubenville, Ohio, hefðu verið fundnir sekir um að nauðga táningsstúlku frá Vestur-Virginíu.“

Fréttakona CNN, Poppy Harlow, sagði þar sem hún stóð fyrir utan dómshúsið í Steubenville að „það væri erfitt að fylgjast með hvað gerðist þegar þessir tveir ungu menn, sem ættu framtíðina fyrir sér, væru stjörnuleikmenn í fótboltaliði skólans og mjög góðir námsmenn, horfðu á framtíð sína hrynja til grunna. Annar ungu mannanna brotnaði niður í fangið á lögfræðingnum sínum og sagði að lífi hans væri lokið, það myndi enginn vilja hann núna.“

Síðar í myndskeiðinu segir sama fréttakona að áfengi hefði verið haft um hönd í samkvæminu þar sem nauðgunin átti sér stað. Nokkru síðar vekur hún athygli áhorfenda á afsökunarbeiðni ungu mannanna í réttarsal og því þegar faðir annars þeirra faðmaði son sinn og hvíslaði í eyra sonar síns að hann elskaði hann.

Undir lokin fékk sjónvarpsstöðin svo inn fréttaskýranda til að fjalla um áhrifin sem þessi dómur muni hafa á líf nauðgaranna. Í myndskeiðinu var aðeins stuttlega minnst á fórnarlambið.

Í umfjöllun ABC er fjallað um málið og tekið viðtal við Ma’lik Richmond, annan nauðgaranna. Umfjöllunin er byrjar á að hann sé stjarna í bænum. Einnig er tilgreint að „hann hafi verið í skapi til að fagna“, og áhersla er lögð á hversu farsælan feril hann kunni að eiga sem íþróttamaður.

Í upphafsorðum fréttar AP-fréttastofunnar er tekið fram að stúlkan sem var nauðgað hafi verið drukkin.

Hörð viðbrögð netheima

Frá því að umfjöllunin og myndskeiðið birtist á CNN hefur fjöldi fólks gagnrýnt sjónvarpsstöðina á Facebooksíðu sjónvarpsstöðvarinnar. Þar á meðal hafa Íslendingar lýst hneykslan sinni á umfjölluninni um málið og birt skopmynd Hugleiks Dagssonar á Facebooksíðunni. Í kjölfar umfjöllunarinnar fór af stað undirskriftarsöfnun þar sem CNN er krafið um afsökunarbeiðni, en þar hafa ríflega 100.000 manns skorað á sjónvarpsstöðina.

George Takei, sem þekktastur er fyrir leik sinn í Star Trek, benti í færslu á Facebooksíðu sinni á tveggja ára gamla frétt grín- og ádeilufréttavefsins theonion.com, þar sem fjallað var með hjartnæmum hætti um hversu erfitt það hefði verið fyrir afreksíþróttamann að komast yfir þá lífsreynslu að hafa nauðgað. Fréttir af vefnum hafa nokkrum sinnum ratað á vefi alvöru fréttamiðla, en nú segja gárungar að því virðist öfugt farið og að ádeilufréttir séu orðnar raunveruleikinn.

Tumblr-síðan publicshaming.tumblr.com tók saman tíst þar sem fólk lýsti skoðun sinni á málinu. Þar má sjá allskonar ummæli þar sem fórnarlambinu er kennt um að hafa komið sér í þær aðstæður að geta verið nauðgað með ofurölvun, lýst samúð með nauðgurunum og að stúlkan hafi borið við nauðgun aðeins eftir að foreldrar hennar sáu myndband af verknaðnum.

Gjörólíkt viðhorfum Íslendinga

María Lilja Þrastardóttir, talskona Druslugöngunnar á Íslandi, sagði að sem betur fer virtust þau viðhorf sem þarna birtast ekki endurspegla viðhorf Íslendinga. „Við fundum það mjög sterkt með Druslugöngunni að hlutirnir hafa breyst. Íslendingar eru almennt mjög vel upplýstir þó svo að þessi viðhorf kunni að leynast einhversstaðar. Þú þarft ekki að leita lengra en á kommentakerfi vefmiðlanna til að sjá að það er enn fólk þeirra skoðunar að fórnarlömb nauðgana, langoftast konur, geti sjálfum sé um kennt,“ segir María Lilja.

„Það er ákveðið högg fyrir kvenréttindabaráttuna að jafnvirtur miðill og CNN skuli láta svona frá sér. Ég held að það verði farið í enn eina Druslugöngu í ár. Við hétum því að ganga þangað til þessi viðhorf væru horfin, en það er ljóst að svo er ekki,“ segir María Lilja

Frétt mbl.is: Piltarnir dæmdir fyrir nauðgun

Frétt mbl.is: Meðhöndluð „eins og leikfang“

Frétt mbl.is: „Hún sagði aldrei skýrt nei“

Frétt mbl.is: Nauðgunarákæra klýfur smábæ

Þessi mynd hefur gengið um netheima í kjölfar umfjöllunar CNN …
Þessi mynd hefur gengið um netheima í kjölfar umfjöllunar CNN um málið http://i.imgur.com/Qt8lrAE.jpg
mbl.is