Fimmtán milljarða greiðslum rift

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs.
Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs. Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur rifti í dag greiðslum Baugs Group frá 11. júlí 2008 til Fjárfestingarfélagsins Gaums, Gaums Holding S.A. og Eignarhaldsfélagsins ISP. Einnig greiðslu Baugs Group frá 14. júlí 2008 til Bague S.A. Um er að ræða rúmir fimmtán milljarðar króna.

Félögin voru jafnframt dæmd til að greiða þrotabúi Baugs Group umræddar fjárhæðir til baka; Fjárfestingarfélagið Gaumur skal greiða 7.188.361.176 krónur, Gaumur Holding S.A. greiði 5.205.445.815 krónur, Eignarhaldsfélagið ISP greiði stefnanda 1.335.359.610 krónur og Bague S.A. greiði 1.328.962.213 krónur.

Jafnframt voru félögin dæmd til að greiða þrotabúinu 59 milljónir króna í málskostnað.

Í dómnum kemur fram að ekkert endurgjald hafi komið fyrir þær greiðslur sem hin félögin Gaumur, Gaumur Holding, ISP og Bague fengu frá Baugi. „Þá ber að leggja til grundvallar að greiðslurnar hafi í raun skert eignir Baugs og raskað hagsmunum almennra kröfuhafa við slit á búi félagsins.“

Greiðslurnar voru notaðar til að greiða niður skuldir félaganna hjá Kaupþingi og Kaupthing Bank Luxembourg. „Greiðslurnar leiddu því til lækkunar á skuldum félaganna og þannig til auðgunar þeirra.“

Á umræddum tíma voru Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. og Gaumur Holding S.A. stærstu eigendur Baugs. Átti fyrrgreinda félagið 38,3% í Baugi og síðargreinda félagið 27,74%. Þá liggur fyrir að Gaumur hafi átt allt hlutafé í Gaumi Holding.

Eigendur Gaums voru Jón Ásgeir Jóhannesson, sem átti 45% hlut í félaginu, Ása Ásgeirsdóttir og Jóhannes Jónsson, sem áttu hvort um sig 22,5% í félaginu, og Kristín Jóhannesdóttir, sem átti 10% í félaginu. Auk framangreindra eigenda Baugs átti Eignarhaldsfélagið ISP ehf. 7,12% í félaginu og Bague S.A. (Bague) 7,09% í því. Ingibjörg Pálmadóttir var eini eigandi ISP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert