Dómur þyngdur yfir skotárásarmanni

Frá aðalmeðferðinni í málinu.
Frá aðalmeðferðinni í málinu. mbl.is/Sigurgeir

Hæstiréttur þyngdi í dag fangelsisvist yfir karlmanni, Tómasi Pálssyni Eyþórssyni, sem ákærður var fyrir þátt sinn í skotárásarmáli sem upp kom í Bryggjuhverfinu í Reykjavík í nóvember 2011. Hann var sakfelldur fyrir hlutdeild í hættubroti og hlaut tveggja ára dóm. Héraðsdómur hafði áður dæmt hann í 18 mánaða fangelsi.

Þrír voru upphaflega ákærðir í málinu og fyrir tilraun til manndráps og hlutdeild í nefndu broti. Af þeim voru tveir sakfelldir fyrir að taka þátt í skotárásinni en einn sýknaður. Allir voru sýknaðir af aðalkröfu ákæruvaldsins, að um tilraun til manndráps væri að ræða, en tvímenningarnir sakfelldir fyrir hættubrot og hlutdeild í hættubroti.

Maðurinn sem hleypti af haglabyssunni, Kristján Halldór Jensson, var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir þátt sinn. Hann skaut úr haglabyssu einu skoti í áttina að bíl fórnarlambsins í málinu, en hæfði ekki. Þegar fórnarlambið ók á brott veittu mennirnir þrír honum eftirför og skaut Kristján þá öðru skoti út um glugga bifreiðarinnar. Við skotið brotnaði afturrúða bíls fórnarlambsins og miklar skemmdir urðu á henni

Tómas sem var sá eini sem áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var dæmdur í tveggja ára fangelsi í dag og leit dómurinn til þess að hann og Kristján sammæltust um að taka með umrædda byssu. Þá hafi hann átt frumkvæði að fundinum, þar sem byssan var notuð, og veitt bifreið fórnarlambsins eftirför. Héraðsdómur leit svo á að aksturslagið hafi í nefndri eftirför verið með þeim hætti að hann hafi verið að reyna að komast í skotfæri við bifreiðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert