„Venjulega ekki skjálftar í Heklu“

Augu landsmanna beinast nú að Heklu eftir að ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á Hvolsvelli lýstu yfir óvissustigi almannavarna í morgun vegna jarðhræringa í Heklu.

Ástæðan fyrir því að menn eru með vakandi auga núna eru þessir smávægilegu skjálftar,“ segir Páll Einarsson, starfsmaður Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands en frá 10. mars 2013 hafa mælst sjö skjálftar með upptök um 4,5 km norðaustur af hátindi Heklu. „Þetta er frekar óvenjulegt, venjulega eru ekki skjálftar í Heklu,“ segir Páll.

Á tíu ára fresti?

Síðast gaus í Heklu árið 2000 og hefur þrýstingur aukist í kvikuhólfunum undir fjallinu allt frá því að gosinu lauk. Mælingar frá árinu 2006 bentu til þess að þrýstingurinn væri orðinn heldur meiri en fyrir síðustu gos. „Þá áttu menn allt eins von á því að dregið gæti til tíðinda fljótlega,“ segir Páll.

Enn hefur ekki gosið í Heklu en nú bíða menn átekta og fylgjast grannt með tilhögun mála. Að sögn Páls geta skjálftarnir undanfarna daga bent til þess að komið sé að þolmörkum, að kvikan gæti verið komin á hreyfingu undir fjallinu. „Þó hafa ekki mælst neinar kvikuhreyfingar enn,“ segir hann.

Eldfjöll eru ekki þekkt fyrir að láta á sér kræla með reglulegu millibili. Gosin í Heklu hafa þó verið óvenjulega regluleg síðustu ár, eða frá gosinu sem varð árið 1970. Eftir það gaus árið 1980, 1991 og loks árið 2000. „Af þeirri ástæðu bjuggust margir við gosi í kringum 2010,“ segir Páll og eftir fréttirnar í morgun bíða margir átekta.

„Aðdragandi Heklugosanna er mjög skammur,“ segir Páll. Árið 2000 liðu 79 mínútur frá því að fyrsti skjálftinn kom og þangað til að gosið kom upp. Gosið kom í kjölfar ákafra skjálftahrina en að sögn Páls voru skjálftarnir mun harðari en þeir sem mælst hafa síðastliðna daga.

Hraungos og gjóska

Mörg gosanna úr Heklu hafa valdið töluverðu tjóni. Þar ber helst að nefna fyrsta gosið sem kom úr henni á sögulegum tíma en það var árið 1104 og þeytti gosið þá gríðarlegu magni af gjósku yfir landið. Gosið lagði stór landsvæði í auðn, þá sérstaklega í Þjórsárdal. „Gos síðustu ára hafa ekki verið mjög stórvægileg,“ segir Páll.

Gos í Heklu hefjast yfirleitt á gjóskugosi en fljótlega eftir það byrjar hraun að renna. Askan er mestu fyrstu klukkustundirnar en síðan dregur fljótlega úr öskumyndun.

Hekla er næstvirkasta eldfjall landsins á sögulegum tíma og hefur gosið að meðaltali á 55 ára fresti síðan land byggðist. Að minnsta kosti 17 gos eru þekkt úr Heklu sjálfri en þar að auki er vitað um fimm gos í nágrenni hennar í sama eldstöðvakerfinu.

mbl.is