Upprisan er lifandi veruleiki

Upprisan er lifandi veruleiki. Öll gerum við bæði í orði og verki mistök í hversdaglegu lífi okkar. Við slíkar aðstæður reynir á okkur; það hefur alltaf verið vandasamt að vera manneskja; við þurfum bæði að geta beðist fyrirgefningar, fyrirgefið öðrum og okkur sjálfum, sem oft reynist erfitt. Satt best að segja þá á upprisan sér stað á hverjum einasta degi, þótt hún kannski fari stundum fram hjá okkur í þessum smáu atriðum daglegs lífs,“ segir sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, sóknarprestur í Bolungarvík.

Ekkert samfélag án fólks

„Ég hef augu mín til fjallanna,“ segir í Davíðssálmum. Sama gildir vestur í Bolungarvík, þar sem bærinn kúrir í skel milli hárra fjalla við rætur Traðarhyrnu. „Það voru viðbrigði að koma hingað vestur, eftir að hafa lengst af búið í Reykjavík og í nokkur ár á sléttlendinu austur á Rangárvöllum. Hér eru hins vegar fjöllin bókstaflega yfir manni og héðan sést út á Djúpið. Það er yndislegt að vera hérna,“ segir Ásta Ingibjörg sem tók við prestsþjónustu í Víkinni í byrjun september á sl. ári. Kom í stað sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, sem nú er biskup Íslands.

„Bolvíkingar hafa tekið vel á móti okkur. Þeir hafa sýnt það með ýmsum hætti og sérlega þykir mér vænt um hvað eldra fólkið hefur tekið mér vel. Smátt og smátt hef ég verið að komast inn í samfélagið, sem eins og önnur á sína hefð og siði,“ segir presturinn sem bætir við að sóknarbörn sín séu kirkjurækin.

Kirkjan er miðlæg

„Góður maður, sem nýlega féll frá, sagði að sér þætti miður allra vegna – og sérstaklega gagnvart prestinum – ef fáir sæktu guðþjónusturnar í Hólskirkju. Þetta viðhorf hef ég fundið mjög sterkt hér í Bolungarvík. Eins er um aðrar samkomur og viðburði. Fólk vill sýna lit. Er meðvitað um félagslegar skyldur sínar og vill taka þátt, enda er ekkert samfélag án fólks,“ segir Ásta Ingibjörg sem þjónar Bolungarvík og Súðavík.

„Til Súðavíkur fer ég kannski einu sinni í viku og messa mánaðarlega. Þar sinnir fólkið líka kirkjunni sinni vel. Í Hólskirkju hér í Víkinni er svo messað annan hvern sunnudag auk þess sem kirkjan er mjög miðlæg í mannlífinu hér eins og gjarnan er úti á landi.“

Í Bolungarvík er fermingarathöfn á skírdag, í dag,  og á föstudaginn langa les heimamaðurinn Pálmi Gestsson leikari Passíusálmana. Á páskadag er svo messa í Hólskirkju; að sjálfsögðu að morgni dags eins og hin sögulega hefð upprisunnar býður.

Sigur yfir myrkum öflum

„Upprisan vitnar um sigur hins góða yfir myrkum öflum lífsins, hún vitnar um sigur lífsins yfir dauðanum. Meginboðskapur upprisunnar er vonin. Steininum hefur verið velt frá gröfinni. Upprisan er gjöf Guðs og vitnar um ást hans til okkar. Því eigum við að leitast við að lifa í gleði og treysta Guði,“ segir Ásta Ingibjörg sem kveðst enn ekki byrjuð að skrifa ræðurnar sem hún flytur úr á páskum.

„En þetta er sígildur boðskapur og kunnuglegt stef sem lagt er út frá. Við meðtökum sjálfsagt upprisunna með misjöfnu móti og túlkum píslar- og upprisusöguna ólíkt á þroskaskeiðum lífs okkar. Þess vegna er gott að heyra hana einu sinni á ári.“

Bolvíkingar duglegasta fólk á Íslandi

Ásta Ingibjörg var prestur á Bíldudal áður en hún kom í Bolungarvík. Þar býr hún í prestsbústaðnum með eiginmanni sínum, Helga Hjálmtýssyni, og dótturinni Svanhildi sem er þrettán ára.

Bolungarvík er sjávarpláss. Allt hverfist um sjósókn og aflabrögð og á Brjótnum, eins og bryggjan í Víkinni er kölluð, er kvika bæjarins.

„Hér í Bolungarvík hefur lífsbaráttan oft verið harðsótt. Mér verður oft hugsað til sagna af strákunum hér, sem um fermingaraldurinn áttu ekki annarra kosta völ en vera rifnir upp klukkan þrjú eða fjögur á nóttinni. Fara út í einhverja bátsskelina til að draga björg í bú. Þetta var gert í nánast öllum veðrum og við þær aðstæður höfðu menn fátt annað að reiða sig á en trúna á almættið. Sjómenn fóru með bænirnar sínar áður en ýtt var úr vör – og margir sjósóknarar gera slíkt enn í dag,“ segir Ásta Ingibjörg og heldur áfram:

„Það hefur stundum verið sagt að Bolvíkingar séu meðal duglegasta fólks á Íslandi. Ég er ekki frá því að sannleikskorn felist í þeim orðum. Hér er myndarleg byggð, blómstrandi mannlíf og vinnudagurinn oft langur. Það er líka sagt að strákarnir í Víkinni hafi í eina tíð verið svo kappsamir að þeir hafi náð öllum sætustu stelpunum á Ísafirði og þær flutt hingað í Víkina. Ég veit ekki hvort þetta er satt, en gengur lífið allt þó ekki út á ást og upprisu?“

mbl.is