„Vegna þess að lýðurinn hrópaði“

Yfirskrift prédikunar biskups Íslands í dag var Upprisan, vonin og …
Yfirskrift prédikunar biskups Íslands í dag var Upprisan, vonin og vorið. Ljósmynd/Þjóðkirkjan

„Fréttir síðastliðinnar viku vitna um það sem gerðist fyrir 40 árum er saklaust fólk var dæmt til að eyða mörgum af sínum bestu árum bak við lás og slá. Hvers vegna gerðist það? Meðal annars vegna þess að lýðurinn hrópaði eins og í Jerúsalem forðum,“ sagði frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, í prédikun sinni í Dómkirkjunni í dag, páskadag.

 „Minnihlutahópar hafa þurft að berjast fyrir réttindum sínum og því að fá að vera eins og þau eru. Oftar en ekki eru börn sem ekki fylgja fjöldanum lögð í einelti. Það á líka við í heimi hinna fullorðnu. Einelti litar líf þess er fyrir því verður, ekki bara meðan á því stendur heldur alltaf. Okkur mannfólkinu hættir til að vera of afskiptasöm þegar það á ekki við, en jafnvel ekki nógu athugul þegar það á við,“ sagði frú Agnes.

Óásættanlegt að hafa ekki í sig og á

Hún sagði að við þyrftum ekki síst á því að halda nú að treysta því allt muni fara vel. „Við megum ekki stöðva við krossinn í efnahagslegum þrengingum okkar sem þjóð, við skulum ganga að gröfinni, finna hana tóma, fyllast von á hið góða, á framtíðina, á lífið og vera vakandi fyrir því sem betur má fara í samfélagi okkar,“ sagði biskup og einnig: „Það er ekki ásættanlegt að fólk hafi ekki í sig og á í landi okkar, sé matarlaust síðustu daga mánaðarins eins og lesa mátti í dagblaði fyrir páskana. Það verður ekki eingöngu lagað með efnahagslegum aðgerðum heldur einnig með breyttu hugarfari.“

„Hann birtist okkur á stundum gleði og sorgar“

„Eins og Jesús birtist konunum við gröfina og lærisveinum sínum eftir upprisuna mun hann einnig birtast okkur.  Hann birtist okkur í öðru fólki, fólki sem hjálpar og styður, fræðir og huggar.  Hann birtist okkur í aðstæðum sem við köllum stundum tilviljanir.  Hann birtist okkur þegar við finnum að við eflumst og fáum þrek til að takast á við erfiðar aðstæður.  Hann birtist okkur á stundum gleði og sorgar, á hversdögum sem og hátíðisdögum, því hann er upprisinn.  Kristur er sannarlega upprisinn,“ sagði frú Agnes í ræðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina