Fleiri stórir skjálftar gætu fylgt í kjölfarið

Upptök tveggja stærstu skjálftanna eru sýnd með svörtum stjörnum á …
Upptök tveggja stærstu skjálftanna eru sýnd með svörtum stjörnum á myndinni Mynd/Veðurstofa Íslands

Jarðfræðingar á Veðurstofu Íslands segja ekki hægt að spá fyrir um framhaldið austan við Grímsey. Til að mynda er ekki hægt að útiloka að jarðskjálftahrinan hafi frekari áhrif á nærliggjandi sprungukerfi með aukinni virkni suðaustan og norðvestan við megin skjálftann.

Eins og greint hefur verið frá mældist snarpur jarðskjálfti, að stærð 5,5, kl. 00:59 þann 2. apríl með upptök í Skjálfandadjúpi eða um 15 km austur af Grímsey. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi og bárust tilkynningar til að mynda frá Grímsey, Húsavík, Raufarhöfn, Mývatnssveit, Akureyri og Sauðarkróki. Í kjölfarið hafa nokkur hundruð eftirskjálftar mælst.

Upptökin eru á brotabelti sem liggur frá Öxarfirði norður fyrir Grímsey, svonefnt Grímseyjarbelti. Skjálfti að stærð 4,7 með upptök um 13,5 km ANA af Grímsey mældist kl 08:56. Þessi skjálfti var um 7,5 km norð-vestan við upptök stóra skjálftans.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að fleiri stórir skjálftar geti fylgt í kjölfarið en ómögulegt er að segja fyrir um það.

Þá greina almannavarnir frá því að jarðskjálftahrinur á þessu svæði verði með nokkurra ára millibili. Þar hafi orðið jarðskjálftahrinur af svipuðu tagi árin 1969, 1974, 1980, 1986, 1994 og 2002. „Þær hrinur stóðu allt frá nokkrum dögum og uppí nokkrar vikur. Búast má við að jarðskjálftar haldi áfram á svæðinu og jafnframt er rétt að benda á að búast má við að jarðskjálftar af svipuðum styrk og skjálftinn í nótt geti orðið á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert