Tvö börn koma á dag til Barnahúss

Frá fundi forsætisráðuneytisins í Þjóðmenningahúsinu þar sem skýrsla nefndar um …
Frá fundi forsætisráðuneytisins í Þjóðmenningahúsinu þar sem skýrsla nefndar um kynferðisofbeldi var kynnt. mbl.is/Golli

Víðast hvar um landið hafa jafnmörg mál eða jafnvel fleiri verið tilkynntl lögreglu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2013 og voru tilkynnt allt árið í fyrra. Yfir 100 kynferðisbrot gegn börnum hafa verið tilkynnt  lögreglu frá áramótum en til samanburðar barst 141 mál til lögreglu allt síðasta ár, segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Á blaðamannafundi í dag voru kynntar niðurstöður nefndar sem skipuð var í janúar og í áttu sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta til að finna leiðir til úrbóta vegna þess neyðarástands sem ríkir vegna kynferðisbrotamála.

41 barn á biðlista hjá Barnahúsi

Frá áramótum hafa helmingi fleiri börn leitað í Barnahús en gera að jafnaði á jafnlöngu tímabili. Um tvö börn hafa nú komið daglega í Barnahús frá áramótum en í fyrsta skipti í sögu Barnahúss þurfa börn að bíða eftir þjónustu Barnahúss. Nú bíður 41 barn eftir þjónustu í Barnahúsi. Um 270-300 börn hafa leitað til Barnahúss á ári en um 470 tilkynningar berast til barnaverndarnefnda vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi á ári. 

Á fundinum kom fram að mjög áríðandi væri nú að styrkja lögreglu, ákæruvald og Barnahús þegar í stað til að takast á við aukinn málafjölda. Þá sé áríðandi að efla enn frekar forvarnar- og fræðslustarf, auka við meðferðarúrræði fyrir brotaþola og brotamenn og styðja við bakið á þeim félagasamtökum sem sinna þjónustu við þolendur og aðstandendur þeirra.

Alls leggur nefndin til 27 tillögur til úrbóta og er heildarkostnaður við þær um 290 milljónir kr. þar með talin kaup á nýju Barnahúsi. Í ljósi þess neyðarástands sem hefur skapast vegna kynferðisbrota gegn börnum var tillögunum forgangsraðað eftir mikilvægi og var það niðurstaða nefndarinnar að 15 tillögur þyldu enga bið. Gert er ráð fyrir 11 nýjum stöðugildum til mæta brýnni þörf.

15 tillögur verða strax að veruleika

Nú þegar verður ráðist í kaup á nýju Barnahúsi en sú tillaga er þó háð samþykki Alþingis. Komið verður á fót landssamráði barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds sem og svæðissamráði sveitarfélaga, lögreglustjóra og barnaverndarnefnda. Sérfræðingum í Barnahúsi verður fjölgað þá þegar. Stuðningur gagnvart aðstandendum brotaþola verður efldur. Þá verður vitundarvakning gegn kynferðislegu ofbeldi efld einnig. Gert verður fræðsluefni um kynferðisofbeldi. Stuðningur við félagasamtök sem sinna þjónustu fyrir brotaþola verður aukinn. Þá er ætlunin að fjölga lögreglumönnum sem sinna rannsókn kynferðisbrota. Ráðinn verður aðstoðarsaksóknari við embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Komið verður upp sálgæslu fyrir lögreglumenn og ákærendur í kynferðisbrotamálum gegn börnum. Ráðinn verður auka saksóknari við embætti ríkissaksóknara. Komið verður á fót áhættumati á dæmdum kynferðisbrotamönnum. Komið verður upp skráningu yfir kynferðisbrotamenn. Ráðinn verður sálfræðingur við embætti Fangelsismálastofnunar.

Eins og fram kom í fyrri frétt mbl.is um málið er kostnaður 14 þessara 15 þátta 79 milljónir og mun ríkisstjórnin taka það af fjárlögum þessa árs af liðnum „óráðstafað“. Kostnaður vegna kaupa á Barnahúsi er nettó 110 milljónir, en núverandi hús verður selt. Alþingi þarf að samþykkja þá ráðstöfun en þegar er þó farið að líta eftir nýju húsi.

Þegar farið að skoða hinar 12 tillögurnar

Hinar 12 tillögurnar sem nefndin lagði til eru sumar komnar til skoðunar hjá viðkomandi ráðuneytum en verða geymdar fram á næsta kjörtímabil.

Þar er um að ræða tillögu um miðlæga stuðnings- og ráðgjafareiningu fyrir brotaþola. Tillögu um ráðningu sálfræðings á geðsvið Landspítalans fyrir fullorðna brotaþola. Tillögu um meðferð fyrir kynferðisbrotamenn. Tillögu um úrræði fyrir þá sem kunna að fremja kynferðisbrot gegn börnum. Tillögu um um læknisskoðanir í Barnahúsi og verkaskiptingu við neyðarmóttöku. Tillögu um rannsóknarsjóð um forvarnir og kynferðislegt ofbeldi. Tillögu um fræðslu um heimilisofbeldi. Tillögu um klám og kynheilbrigði. Tillögu um miðlægt gagnasafn. Tillögu um endurmenntun og þjálfun lögreglumanna sem fást við kynferðisbrot. Tillögu um fjölgun félagsráðgjafa við embætti Fangelsismálastofnunar og tillögu um upplýsingar úr sakarvottorði.

Heildarkostnaður við allar tillögurnar í heild sinni er áætlaður um 290 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert