Veiða sér til matar í róðri milli Noregs og Íslands

Fjórir Íslendingar hyggjast róa á milli Noregs og Íslands í sumar. Til verksins nota mennirnir sérstakan úthafsróðrabát til að róa yfir Norður-Atlantshafið. Enginn hefur gert þetta áður svo vitað sé til. 

Róið verður í fyrsta áfanga frá Noregi til Orkneyja og þaðan áleiðis til Færeyja áður en farið er til Íslands. Saga Film hefur hafið tökur á heimildamynd um leiðangurinn.

Stysta leið á milli landanna er 1600 kílómetrar en að sögn Eyþórs Eðvarðssonar, sem er einn fjórmenninganna, má gera ráð fyrir því fyrir því að ferðin sé um 2500 kílómetrum í sjó vegna straums og vinda. Auk Eyþórs verða þeir Einar Örn Sigurdórsson, Kjartan Jakob Hauksson og Svanur Wilcox með í för. 

Leggja af stað á þjóðhátíðardegi Norðmanna

Hann segir að meðalhraðinn sé um 5 kílómetrar á klukkustund. Lagt verður af stað frá Kristiansand, 17. maí á þjóðhátíðardegi Norðmanna. „Við verðum vonandi komnir til Íslands undir lok júlí eftir það getur verið allra veðra von og ekki eins gott að róa í slíkum aðstæðum,“ segir Eyþór.

Bátinn keyptu þeir frá Hollandi. Hann vegur 1,6 tonn og er útbúinn rými til gistingar auk stjórnklefa. Eyþór segir tvo róa í einu á meðan tveir hvíla sig allan sólarhringinn. Hann segir að hugmyndin hafi kviknað út frá kappróðrardegi á sjómannadeginum. Vistir til þriggja mánaða verða um borð.

„Við erum líka með eimingargræjur sem gera okkur kleift að eima vatn. Við þurfum mikið að drekka. Svo erum við með veiðistöng sem við getum notað til að veiða okkur til matar,“ segir Eyþór.

Verða líklega sjóveikir 

Hann segir að báturinn verði í sambandi við Siglingamálastofnun á hverjum degi. Allir hafa þeir farið í slysavarnarskóla sjónmanna. Allir eiga mennirnir rætur að rekja til Vestfjarða og hafa unnið við sjóstörf. „En við verðum líklega sjóveikir, við sleppum líklegast ekki við það,“ segir Eyþór.

Undirbúningur ferðarinnar hófst fyrir einu og hálfu ári. ,,Við höfum nýtt tímann í að koma okkur í form. Við höfum róið í um klukkutíma á dag, lækkað púlsinn til að vera eins og góð dísilvél. Við munum brenna upp undir 7 þúsund kaloríum á sólarhring. Því þurfum við að borða, drekka og sofa vel. En við munum grennast það er ljóst,“ segir Eyþór.

Á slóðir Auðar djúpúðgu

Báturinn heitir Auður djúpúðga eftir kvenskörungnum mikla. „Hún tengir saman allt svæðið sem við róum um. Hún er frá Noregi, hún kynntist Ólafi Hvíta á Orkneyjum, svo fór hún til Færeyja líka. Í Orkneyjum munum við hitta fyrir sagnamann sem segir frá tengslum Íslendinga við Orkneyjar, sama verður gert í Færeyjum. Íslendingar skrifuðu sögu Færeyinga og sögu Orkneyinga. Því viljum við minna á þessi sögulegu tengsl sem þarna eru,“ segir Eyþór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert