Verkfræði og forritun í grunnskóla

Mikilvægt er að tengja grunnskólanám atvinnulífinu og gera háskólanám áþreifanlegra á efstu stigum grunnskólanna. Þetta segir kennari í  Hörðuvallaskóla í Kópavogi þar sem nú er boðið upp á nýstárlegt námskeið fyrir nemendur í 9. og 10. bekk sem nefnist Skapandi verkfræði og forritun.

Elínborg Siggeirsdóttir sem hefur umsjón með náminu fór í samstarf við Háskólann í Reykjavík og stoðtækjaframleiðandann Össur en markmiðið er m.a. að nemendur tileinki sér undirstöðuatriði í forritun og verkfræðilegri hugsun. En farið var í heimsóknir og krakkarnir fengu að kynnast starfi verkfræðinga og forritara af eigin raun.

Nemendurnir 12 sem stunda námskeiðið voru sammála um að slíkt námskeið auki líkurnar á því að þeir mennti sig í raungreinum eftir að hafa kynnst þeim möguleikum sem þar eru í boði. Einungis ein stúlka sótti námskeiðið sem er valfag en Elínborg er sannfærð um að þær verði fleiri þegar fram líða stundir.

Mbl.is kom við í Hörðuvallaskóla og fékk að kynnast verkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina