Andlát: Ólafur Halldórsson handritasérfræðingur

Ólafur Halldórsson.
Ólafur Halldórsson.

Dr. Ólafur Halldórsson handritasérfræðingur lést á Landspítalanum við Hringbraut að kvöldi fimmtudags 4. apríl. Ólafur var 92 ára að aldri. Hann fæddist að Króki í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) 18. apríl 1920.

Ólafur lauk stúdentsprófi frá MA árið 1946 og cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1952. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar þar sem hann sérmenntaði sig í handritalestri hjá Jóni Helgasyni prófessor auk þess að starfa sem lektor við Kaupmannahafnarháskóla.

Ólafur fluttist til Íslands með fjölskyldu sína árið 1963 og hóf störf hjá Handritastofnun Íslands við handritarannsóknir. Stofnunin flutti árið 1969 á Suðurgötu og breyttist nafn hennar þá í Stofnun Árna Magnússonar, þar sem hann starfaði til starfsloka við sjötugt. Eftir það starfaði Ólafur sjálfstætt og hafði lesaðstöðu hjá stofnuninni. Ólafur mætti reglulega til starfa á meðan heilsa og geta leyfði, fram yfir nírætt.

Ólafur vann um áratugaskeið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum. Hann var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga árið 1975 og árið 2010 var hann heiðraður á færeyskri menningarhátíð í Reykjavík fyrir starf sitt í þágu menningartengsla Færeyinga og Íslendinga. Sama ár hélt Stofnun Árna Magnússonar málþing honum til heiðurs.

Foreldrar Ólafs voru Halldór Bjarnason bóndi og Lilja Ólafsdóttir. Systkini Ólafs voru níu talsins og eru eftirlifandi þau Ingibjörg, Páll Axel, Gísli, Guðmundur og Helga María. Látin eru Stefán Helgi, Bjarni, Guðfinna og Bjarni yngri. Ólafur kvæntist Aðalbjörgu Vilfríði Karlsdóttur, f. 29. ágúst 1925, d. 3.3. 1998 frá Húsavík, í Kaupmannahöfn 4. janúar 1957. Börn þeirra eru Lilja, fulltrúi hjá skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðarbæjar, f. 1957, Dagrún Steinunn, stærðfræðikennari við Flensborgarskóla, f. 1959 og Karl, deildarstjóri hjá Advania, f. 1961. Barnabörn eru níu og barnabarnabörn sex talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »