Segja sig frá Al Thani málinu

Þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall kynntu ákvörðun sína fyrir …
Þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall kynntu ákvörðun sína fyrir fjölmiðlum í dag mbl.is/Ómar Óskarsson

Gestur Jónsson hrl. og Ragnar H Hall hrl., verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar í svokölluðu Al Thani máli, hafa ákveðið að segja sig frá málinu. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag.

Þeir segjast gera þetta vegna þess að þeir telja að réttur skjólstæðinga sinna til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dómi hafi verið þverbrotinn án þess að verjendur hafi fengið tækifæri til að koma að rökstuðningi skjólstæðinga sinna.

„Við teljum að aðgangur verjenda að rannsóknargögnum í málinu hafi verið takmarkaður með þeim hætti að brotið sé gegn lögum um meðferð sakamála og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hefur verjendum verið synjað um frest til gagnaöflunar sem þeir telja nauðsynlegt að undirbúa vörn í málinu. Á sama tíma hafa dómstólar látið ákæruvaldið komast upp með málatilbúnað sem fer augljóslega í bága við ákvæði laga um meðferð sakamála.

Við erum sannfærðir uµ sakleysi skjólstæðinga okkar gagnvart þeim ákæruatriðum sem að þeim beinast. Við teljum hins vegar að með áframhaldandi þátttöku í þessum málarekstri værum við að gera okkar til þess að ljá málsmeðferðinni það yfirbragð að skjólstæðingar okkar hafi notað þeirrar réttinda sem þeim ber samkvæmt réttum reglum. Við erum ekki tilbúnir til þess að taka þátt í slíku og höfum því ákveðið að segja okkur frá verjendastarfinu í þessu máli,“ segir í yfirlýsingu Ragnars og Gests.

Aðalmeðferð í svokölluðu Al-Thani máli hefst 11. apríl nk. Ákæruvaldið hefur lokið gagnaöflun og lagt fram sín gögn í málinu.

Í Al-Thani-málinu eru ákærðir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings banka í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti stóran eignarhlut í bankanum.

Ákærur í Al Thani málinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert