Dæmdur í átta ára fangelsi

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Jens Hjartarson í átta ára fangelsi fyrir nauðgun, grófar líkamsárásir auk nokkurra fíkniefna- og umferðarlagabrota. Honum er m.a. gert að greiða rúmar þrjár milljónir í miskabætur og allan sakarkostnað.

Þá var Jens, sem er 33 ára gamall, sviptur ökuréttindum ævilangt.

Fjölskipaður dómur segir að Jens eigi sér engar málsbætur. Brot hans séu hrottaleg og árásirnar með öllu tilefnislausar.

Málið gegn Jens var höfðað með þremur ákærum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Í janúar var gefin út ákæra á hendur honum fyrir að hafa nauðgað konu á heimili hennar í ágúst í fyrra, en hann þvingaði hana til samræðis og endaþarmsmaka með ofbeldi.

Þá var Jens ákærður fyrir mjög grófa líkamsárás með því að hafa í desember sl. ráðist á stúlku, þar sem hún var gestkomandi í herbergi hans í Reykjavík, með ítrekuðum höggum í andlit, fyrst í rúmi herbergisins og síðan á gólfi þess. Hann sló hana með eldhússtól, dró hana á hárinu eftir gólfinu og niður tröppur, tók hana hálstaki og hélt fyrir munn hennar og nef þannig að hún náði ekki andanum. Þá reif hann í hár hennar og lagði eldhúshníf að hálsi hennar á sama tíma og hann hafði í líflátshótunum við hana. Stúlkan hlaut mikla áverka á líkama.

Hann var jafnframt ákærður fyrir að hafa ráðist á starfsmann bensínstöðvar í október í fyrra. Jens sló hann nokkrum höggum með krepptum hnefa í andlitið, þannig að maðurinn féll í gólfið. Þar sem hann lá í gólfinu sparkaði Jens í hann, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut rispur og yfirborðsáverka í andliti.

Í sama mánuði réðist hann á stúlku á heimili hennar í Reykjavík. Jens sló hana höggi í höfuðið, þannig að hún féll í gólfið, þá greip hann um handleggi hennar og dró hana inn á baðherbergi íbúðarinnar, þar sem hann tók um háls hennar og þrýsti fingri undir hægra kjálkabarð, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut rispur og mar undir vinstra kjálkabarði og eymsli í neðri kjálka, við kjálkalið, hægra megin.

Einnig voru gefnar út ákærur á hendur honum fyrir fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot, húsbrot og gripdeild.

Samkvæmt sakavottorði hefur honum fimmtán sinnum verið gerð refsing fyrir ýmis brot frá árinu 2002. Hinn 9. desember 2003 var hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, tilraun til manndráps, valdstjórnarbrot og ólögmæta nauðung. Jens var einnig dæmdur í sex mánaða fangelsi árið 2008 fyrir valdstjórnarbrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert