Hafnfirðingar orðnir 27 þúsund

Vala Magnúsdóttir og Eiríkur Haraldsson með litlu stúlkuna
Vala Magnúsdóttir og Eiríkur Haraldsson með litlu stúlkuna

27 þúsundasti Hafnfirðingurinn er stúlka sem fæddist þann 20. mars 2013, foreldrar hennar eru þau Vala Magnúsdóttir og Eiríkur Haraldsson og er fjölskyldan búsett í Vallahverfinu.

Bæjarstjóri heimsótti þau í dag og færði þeim gjafir í tilefni þessa merka áfanga. Litla stúlkan var hin rólegasta yfir þessu öllu og virtist bara vera hin ánægðasta með heimsóknina.

„Það er gaman að því að við skulum hafa náð þessu marki og óska ég fjölskyldunni til hamingju með litlu dásemdina og að sjálfsögðu með að vera 27 þúsundasti Hafnfirðingurinn.  Þar sem hún hefur ekki enn fengið nafn stakk ég auðvitað að þeim nokkrum nöfnum sem tengjast sögu bæjarins en það á allt eftir að koma í ljós hvaða nafn þessi fallega stelpa muni fá – ég óska þeim alls hins besta og velfarnaðar í framtíðinni,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri, í fréttatilkynningu.

Þegar Hafnarfjarðarbær fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 voru bæjarbúar um 1400 en eru í dag, miðvikudaginn 17.apríl 2013, 27.023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert