Hjálpa fólki að kjósa „rétt“

Kristján Ingi Mikaelsson, Ragnar Þór Valgeirsson og Ásgeir Vísir standa …
Kristján Ingi Mikaelsson, Ragnar Þór Valgeirsson og Ásgeir Vísir standa að baki síðunni kjosturett.is Kjosturett.is

„Ég var að leita að miðlægum stað þar sem ég gæti fundið allar upplýsingarnar um kosningarnar svo ég þyrfti ekki að þræða síður allra framboðanna,“ segir Ragnar Þór Valgeirsson, vefsmiður og nemi á lokaári í Verzlunarskóla Íslands. Þegar hann áttaði sig á því að slík síða var ekki til, hafði hann samband við Kristján vin sinn og þannig byrjaði boltinn að rúlla.

Stefnur allra framboðanna á einum stað

Í gærkvöldi opnaði heimasíðan kjosturett.is. Að baki síðunni standa auk Ragnars Kristján Ingi Mikaelsson, forritari, og Ásgeir Vísir, grafískur hönnuður. Á síðunni geta kjósendur fundið upplýsingar um stefnu allra þeirra 15 flokka og framboða sem bjóða fram lista til Alþingis í komandi kosningum 27. apríl. Þetta framtak ætti að auðvelda mörgum að kynna sér málefni flokkanna og taka upplýsta ákvörðun áður en gengið verður að kjörborðinu.

„Við byrjuðum á þessu laugardaginn 6. apríl,“ segir Ragnar. Að baki síðunni liggur heilmikil vinna og var hún unnin á stuttum tíma. „Það fór hellingur af klukkutímum í þetta.“ Teymið skipti vinnunni bróðurlega á milli sín og gekk samstarfið vel að sögn Ragnars.

Ragnar viðurkennir að síðugerðin hafi vissulega tekið tíma frá náminu en þeir Kristján, sem einnig er á lokaári í Verzló, hafi mætt skilningi og velvilja kennara sinna.

Veraldarvefurinn ekki nægilega vel nýttur

„Það kom okkur á óvart hvað margir flokkar eru ekki með stefnumál sín nógu aðgengileg,“ segir Ragnar. Veraldarvefurinn bíður upp á marga möguleika og þeirra skoðun sé sú að fleiri mættu nýta eiginleika þess betur til að koma sér á framfæri.  „Þarna er fullt af tækifærum sem mætti nýta betur.“

Forsvarsmenn flokkanna hafa verið liðlegir og viljugir að veita upplýsingar fyrir síðuna. Þeir hafa nú fengið svör frá flestum flokkum en eiga enn von á nokkrum svörum

Fólk þakklátt fyrir framtakið

Síðan var opnuð í gærkvöldi kl. 22 og hefur að sögn Ragnars þegar fengið frábær viðbrögð. „Það kom okkur á óvart hvað fólk er þakklátt fyrir síðuna“. Fyrstu tvo tímana fóru 1300 manns inn á síðuna og var orðið fljótt að berast milli manna, þá sér í lagi í gegnum Facebook.

Teymið mun ekki láta staðar numið en þeir stefna að því að setja fram sambærilegar upplýsingar fyrir aðrar kosningar í framtíðinni, hvort sem er til sveitastjórna, forsetakosningar eða jafnvel Eurovision.

Ragnar á eftir að ákveða hvaða flokkur fær atkvæði hans á kjördag. „Ég á eftir að taka upplýsta ákvörðun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina