Lopapeysan bjargaði folaldinu

Folaldið Góa í lopapeysunni frá Rauða Kross Íslands.
Folaldið Góa í lopapeysunni frá Rauða Kross Íslands. Þórólfur Sverrisson

Það er ekki aðeins mannfólkið sem kann að meta íslensku lopapeysuna. Folaldið Góa, sem kom óvænt í heiminn 21. mars, gekk í einni slíkri fyrstu tvær vikurnar eftir að hún kom í heiminn.

Þegar móðir Góu kastaði henni óvænt í hesthúsi á Eskifirði reyndist hún vera fyrirburi, með gisinn og snöggan feld. Þórólfur Sverrisson, eigandi folaldsins, brá því á það ráð að fara í búð Rauða krossins á Eskifirði og útvega því lopapeysu. „Það var leiðindaveður úti,“ segir Þórólfur. „Það var þetta sem hélt í því lífi fyrsta hálfa mánuðinn.“

Hefur áður gripið til nýstárlegra leiða

Þórólfur hafði ekki hugmynd um að merin gengi með folald. „Móðirin gekk úti allan fyrravetur og átti ekki að vera nálægt stóðhesti,“ segir hann. Í fyrravor slapp veturgamalt trippi inn í girðinguna þar sem merin var og telur Þórólfur að Góa sé afrakstur þeirrar heimsóknar. Merin var tekin á hús í vetur, járnuð og hafði dóttir hans farið á bak á merinni í vetur. „Hinn 21. mars finnur bróðir minn folaldið í hesthúsinu,“ segir Þórólfur.

Það verður líf og fjör við hesthúsin á næstu vikum því Þórólfur á von sex folöldum til viðbótar. Hann segir þetta ekki vera í fyrsta skipti sem hann grípi til nýstárlega ráða í búskapnum.

„Fyrir nokkrum árum kastaði hryssa folaldi sem reyndist vera spastískt og drapst stuttu síðar,“ segir Þórólfur. Hann brá þá á það ráð að kaupa kálf og lét hann ganga undir hryssunni. Það gekk vel og undu þau sér vel saman það sem eftir lifði sumars.

Folaldið Góa hefur nú vaxið og dafnað og þarf ekki lengur á peysunni að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert