Saltsýruleki í Fontana við Laugarvatn

Heilsulindin Fontana við Laugarvatn.
Heilsulindin Fontana við Laugarvatn. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Um 60 lítrar af saltsýru láku í kvöld úr tank í birgðageymslu í kjallara heilsulindarinnar Fontana við Laugarvatn. Allt tiltækt slökkvilið á Laugarvatni var kallað út til að hreinsa upp sýruna auk þess sem slökkviliðsmenn frá Selfossi komu til aðstoðar með kalk sem notað var til að núllstilla áhrif sýrunnar.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi varð starfsmaður gufubaðanna var við lekann og tilkynnti hann strax til neyðarlínunnar klukkan 19:25 í kvöld. Engum varð meint af að sögn lögreglu og ekki mikil hætta á ferðum þar sem fáir voru staddir í húsinu og þurfti ekki að rýma.

Saltsýra getur hins vegar verið mjög hættuleg bæði fólki sem og umhverfinu. Slökkviliðið notaði sem fyrr segir kalk til að núllstilla sýruna þannig að mögulegt væri að moka henni út í kar sem losað verður á gámastöð, samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu.

Allir sem komu að verkefninu voru með öndunarbúnað til að varast uppgufun sýrunnar. Starfi lögreglu lauk um klukkan 23 í kvöld. Þetta er í annað sinn sem sýruleki verður í gufubaðinu Fontana. Orsakir lekans verða skoðaðar og unnið að úrbótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert