40% þolenda nauðgana yngri en 18 ára

Þolendur nauðgana sem tilkynntar eru til lögreglu eru flestir mjög ungar konur og að meðaltali 7 árum yngri en þeir sem brjóta gegn þeim. Um 40% eru yngri en 18 ára og teljast því börn samkvæmt lögum. Nauðganir eru oftast framdar í heimahúsum, þolendur hafa flestir neytt áfengis og vinir eða kunningjar eru stærsti einstaki hópur gerenda. Ungur aldur brotaþola og aldursmunur milli þeirra og geranda er því einkennandi í nauðganamálum sem gefur til kynna aðstöðu- og þroskamun þeirra á milli.

Þetta er meðal þess sem fram kemur nýrri rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Rannsóknin var unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, mann- og kynjafræðingi og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, lögfræðingi, með aðstöð Maríönnu Þórðardóttur meistaranema í lýðheilsuvísindum. 

Samantekt á helstu niðurstöður rannsóknarinnar var gefin út í dag en hún var unnin með styrk og stuðningi innanríkisráðuneytisins og Norræna sakfræðiráðsins. Samantekt þessi byggir á fyrsta áfanga umfangsmikillar rannsóknar á einkennum nauðgunarmála og meðferð þeirra í réttarkerfinu. 

165 tilkynningar um 189 meint brot

Á árunum 2008 og 2009 bárust lögreglu 165 tilkynningar um nauðganir. Í sumum tilvikum var aftur á móti um fleiri en einn geranda að ræða, og/eða um fleiri en eitt brot að ræða og því eru málin alls 189. Öll málin falla undir 194. grein almennra hegningarlaga.

Hafa verður í huga að ekki eru allar nauðganir tilkynntar til lögreglu og því er ekki hægt að draga almennar ályktanir um alla þá sem nauðga eða þá sem verða fyrir nauðgunum af niðurstöðum rannsóknarinnar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að á rannsóknartímabilinu voru tilkynntar 189 nauðganir og því oft ekki mörg mál að baki hverju prósentustigi.

71% gerenda íslenskir

Við greiningu á málsgögnum kom m.a. í ljós að flest brot eru tilkynnt um helgar eða um 63% og eru flest framin að næturlagi og undir morgun frá föstudegi til sunnudags (61%). Oftast leita brotaþolar sjálfir til lögreglu eða í 38% tilvika.

Í öllum málunum nema einu voru gerendur karlar eða drengir og í 71% málanna voru gerendur íslenskir. Útlendingar voru gerendur í 23% málanna og flestir voru þeir evrópskir. Útlendingar koma frekar fyrir í málum þar sem gerendur og þolendur þekkjast ekki og er það m.a. talið geta skýrt svo hátt hlutfall útlendinga af gerendum. Þá er mögulegt að þeir sem verði fyrir nauðgunum séu líklegri til að leggja fram kæru á hendur þeim sem þeir ekki þekkja en þeim sem standa þeim nærri.

Í nokkrum málanna var ekki tilgreint hvert þjóðerni geranda var, eða það ekki vitað.

Af þeim tilkynningum sem bárust lögreglu um nauðganir voru gerendur flestir á aldrinum 18-29 ára. Aldursdreifingin er mikil en yngsti gerandinn var 12 ára og sá elsti 68 ára.

Alls voru 13 gerendur undir 18 ára aldri eða í 7% málanna, þar af voru sex 14 ára og yngri.

Í fjórum málum voru brotaþolar karlar eða drengir. Flestir brotaþolar voru íslenskar konur. Um 7% þeirra voru af öðru þjóðerni.

Stór hópur þolenda börn að aldri

Rannsóknin leiddi í ljós að flestir brotaþolar eru mjög ungir. Um helmingur var á 19 ára eða yngri en meðalaldur allra brotaþola var 22 ár. Um 40% voru yngri en 18 ára og teljast því börn samkvæmt lögum.

Þegar borinn er saman aldur gerenda og þolenda í nauðgunarmálum sem tilkynnt eru lögreglu kemur í ljós að gerendur eru að meðaltali sjö árum eldri en þeir sem brotið er gegn. Þannig eru 27% gerenda yngri en tvítugir en 52% þolenda. Ungur aldur brotaþola og aldursmunur milli þeirra og geranda er því einkennandi fyrir málin sem gefur til kynna aðstöðu- og þroskamun þeirra á milli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert