Rannsókn lögreglu hætt í 53,4% nauðgunarmála

Sakfellt var í fyrir nauðgun í 21 máli af þeim …
Sakfellt var í fyrir nauðgun í 21 máli af þeim 189 sem bárust lögreglunni. mbl.is

Af þeim 189 nauðgunarmálum sem tilkynnt voru eða kærð til lögreglunnar á Íslandi á árunum 2008 og 2009 var rannsókn hætt í 101 máli eða 53,4%. Þegar hlutfall mála þar sem lögregla hætti rannsókn af efnislegum ástæðum er kannað þá lækkaði hlutfall þeirra mála sem rannsókn var hætt  í 26%.

88 málum var vísað til ríkissaksóknara og af þeim felldi saksóknari  57 mál niður. Um 64,8% nauðgunarmálanna sem komu á borð ríkissaksóknara  voru því felld niður en  ákært var í 31 eða 35,2% málanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur nýrri rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009.

Í 19 tilvikum var rannsókn hætt vegna þess að gerandinn var óþekktur eða fannst ekki og 5 mál taldi lögreglan hvorki líkleg né nægjanleg til sakfellingar.

Í 70 málum af 101 var rannsókn hætt af formlegum ástæðum, s.s. að brot væru fyrnd (2), hinir kærðu væru ósakhæfir (6), hinir kærðu væru óþekktir eða fundust ekki (19) eða að kæra vegna nauðgunarinnar hafi ekki verið lögð fram (43). Hins vegar var 31 mál þar sem lögreglan ákvað að hætta rannsókn af efnislegum ástæðum, s.s. að þau væru ekki talin líkleg til sakfellingar (5), ekki hafi verið efni til rannsóknar (2) eða af öðrum efnislegum ástæðum (16).

En hverjar eru skýringar lögreglu á því að hætta rannsókn máls?

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að í 12 málum var skortur á vitnum skýringin. Þá þótti ásetningur geranda ekki sannaður í 8 málum. Aðrar skýringar sem gefnar voru í málunum sem um ræðir eru þær að orð standi á móti orði, að framburður vitnis/vitna styðji ekki við frásögn brotaþola eða að ósannað væri að þvingun hefði verið beitt.

Af því 31 máli sem ríkissaksóknari ákærði í og fór fyrir dóm var sakfellt fyrir nauðgun og nauðgunartilraun í 21 máli. Í tveimur málum til viðbótar var sakfellt fyrir önnur kynferðisbrot. Sakfellingarhlutfallið var því 74,2% en sýknað var fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot í átta málum (25,8%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert