Skýr áhrif kláms í nauðgunarmálum

Greina má skýr áhrif kláms í að minnsta kosti 19% þeirra nauðgunarmála sem komu til kasta lögreglunnar á Íslandi á árunum 2008 og 2009. Í sumum málunum var klámefni beinlínis hluti af brotinu þannig að gerandi horfði á klám á meðan hann braut gegn þolandanum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur nýrri rannsókn á einkennum og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Samantekt á helstu niðurstöður rannsóknarinnar var gefin út í dag en hún var unnin með styrk og stuðningi innanríkisráðuneytisins og Norræna sakfræðiráðsins.

Áhrif kláms voru meðal þeirra fjölmörgu þátta sem skoðaðir voru en rannsakendur fengu, með leyfi Persónuverndar, aðgang að skjölum lögreglu og ríkissaksóknara í nauðgunarmálum.

Í sumum málunum mátti sjá bein áhrif kláms með þeim hætti að gerendur notuðu orðfæri eða hátterni sem eru einkennandi fyrir klámiðnaðinn. Einnig einkenndust nokkur mál af endaþarmsnauðgunum og hópnauðgunum og í sumum þeirra mála má að mati höfunda rannsóknarinnar ætla að gæti áhrifa kláms.

Í nýlegri rannsókn Agnesar Gísladóttur og fl. mátti sjá fjölgun mála vegna endaþarms- og hópnauðgana samkvæmt komuskýrslum hjá Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis er borin voru saman tímabilin 1998-2002 og 2003-2007.

Að mati rannsakenda kann þetta að gefa vísbendingu um aukin áhrif kláms á kynferðisofbeldi.

mbl.is