Framkvæmdum í Gálgahrauni harðlega mótmælt

Yfirlitsmynd af veglagningu um Gálgahraun
Yfirlitsmynd af veglagningu um Gálgahraun

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands mótmælir harðlega áformum Vegagerðarinnar og bæjaryfirvalda í Garðabæ um að hefja framkvæmdir við gerð nýs Álftanesvegar yfir ósnortið Gálgahraunið nú strax í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

„NSVE skorar á framkvæmdaraðila nýs Álftanesvegar, að fresta undirritun verksamnings við Íslenska aðalverktaka þar til fyrir liggur fullnægjandi úttekt á núverandi vegstæði í samræmi við svokallaða núlllausn samkvæmt lögum. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands minna á að eldhraun eins og Gálgahraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Samtökin leggja eindregið til að allt Búrfellshraun verði friðað sem allra fyrst, en ekki aðeins hlutar hraunsins eins og nú er.

Gálgahraun er um margt sérstakt á heimsvísu. Það er ysti hluti Búrfellshrauns sem myndar einstaka hraunheild frá gígnum Búrfelli og til sjávar gegnt Bessastöðum. Fjöldi forna leiða liggur um hraunið og þar er að finna margvíslegar búsetuminjar. Í hrauninu er fjölbreytt fuglalíf og gróður og sem heild er Gálgahraun afar verðmætt útivistarsvæði fyrir þéttbýlið á suðvesturhluta landsins. Það gildi vex með hverju árinu.

Ekkert hefur komið fram sem gerir endurbætur á núverandi vegi yfir hraunið að lakari kosti en nýr vegur yfir ósnortið hraun. Umhverfismat sem gert var á sínum tíma er orðið meira en tíu ára gamalt og sjálfsagt er að kanna hvort það þarfnist endurnýjunar, m.a. virðist fornleifaskráningu ábótavant. Sama gildir fyrir framkvæmdaleyfi fyrir nýjum Álftanesvegi,“ segir í ályktun aðalfundarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina