Sömu kosningaloforðin og sömu deilumálin í áratugi

Morgunblaðið hefur greint skilmerkilega frá öllum kosningum hér á landi allt frá því að fyrsta blaðið var gefið út árið 1913.  Stjórnmálasaga undanfarinna 100 ára er rituð á síður blaðsins og margar kosningaauglýsingar fyrri tíðar gætu vel átt heima í kosningabaráttunni núna árið 2013. Að minnsta kosti virðast loforðin lítið hafa breyst og um sumt hefur verið deilt svo áratugum skiptir.

Mbl.is skoðaði umfjöllun fyrir nokkrar kosningar undanfarna áratugi.

Árið 1916 voru heimastjórnarkosningar á Íslandi og ekki voru fleiri á kjörskrá í Reykjavík en svo að það var þriggja manna verk að telja öll atkvæðin. 

Alþingiskosningar voru haldnar 9. júlí 1927 og á forsíðu Morgunblaðsins þann dag voru lesendur varaðir við því að glundroðamenn næðu völdum og þá var, líkt og nú, deilt um byggingu Landspítala.

Halldór Laxness var í framboði og deilt um flugvöll

Orðið skjaldborg er alls ekki svo síðari tíma slagorð í stjórnmálum og Reykjavíkurflugvöllur er heldur ekkert nýtt deilumál, en hann var eitt af kosningamálunum í alþingiskosningunum fyrir 67 árum, árið 1946. Þá, líkt og nú, létu listamenn til sín taka í pólitík og einn framboðslistann prýddi enginn annar en Halldór Laxness.

Árið 1956 var, samkvæmt Morgunblaðinu, kosið um frelsi og framfarir eða höft og kyrrstöðu og þá voru 94.000 á kjörskrá í 33 kjördæmum. Kjósendum hefur nokkuð fjölgað síðan þá, á kjörskrá eru nú tæplega 238.000. Kjördæmum hefur aftur á móti fækkað mikið og eru nú sex.

Varað við að kjósa glundroða árið 1967

Landsmenn voru varaðir við að kjósa glundroða árið 1967 og Auður Auðuns, einn frambjóðenda, sagði launajöfnuð karla og kvenna brýnt mál. Enn hefur þessi jöfnuður ekki náðst, eins og nýjustu kannanir sýna.

Árið 1974 var enn og aftur komið að kosningum. Þá var lesendum Morgunblaðsins bent á að varast vinstri slysin og húsnæðiskostnaður unga fólksins var frambjóðendum hugleikinn.

Fólkið og fjármagnið tókust á

Enn gengu landsmenn til kosninga árið 1995 og sé eitthvað að marka auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu skömmu fyrir kosningar tókust þar á fólkið og fjármagnið. Velferð, jafnrétti, nýjum tækifærum og gjaldfrjálsum leikskóla fyrir öll börn var síðan lofað í kosningunum fyrir tíu árum, árið 2003.

Sumt af þessu hljómar kunnuglega í kosningabaráttunni sem nú fer fram og óhjákvæmilega vaknar þessi spurning: er eitthvað að marka kosningaloforð?

mbl.is