Gunnar krefst brottvikningar Sigríðar

Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins.
Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins. Ómar Óskarsson

Gunnar Þorsteinsson, Gunnar í Krossinum, hefur krafist þess að biskup Íslands víki Sigríði Guðmarsdóttur, sóknarpresti í Grafarholti í Reykjavík, úr starfi. Ástæðan er pistill sem Sigríður skrifaði á bloggsíðu sína fyrr í mánuðinum undir fyrirsögninni Konurnar í Krossinum. Þetta kemur fram í bréfi, sem lögmaður Gunnars sendi Biskupsstofu um miðjan apríl.

Sigríður er ekki tilbúin til að tjá sig um málið.

í pistlinum segist hún hafa valið að trúa konunum sem segjast hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi Gunnars og segir það vera grundvallarrétt í lýðfrjálsu landi að þau, sem telja sig hafa orðið fyrir kynferðisbrotum, fái að segja sögu sína opinberlega án ógnunar.

Í bréfinu til Biskupsstofu segir meðal annars að hingað til hafi Gunnar látið gagnrýnisraddir sem vind um eyru þjóta, enda gagnrýnin iðulega sett fram af „fullkomnu þekkingarleysi“, eins og segir í bréfinu. 

„Öðru máli gegnir hins vegar þegar starfandi prestar fjalla um mál sem þetta, enda njóta þeir almennt virðingar og trausts í samfélaginu. Þegar kirkjunnar þjónar fjalla um umdeild mál, eins og það sem hér um ræðir, verður að gera ríkar kröfur til þess að hlutlægni sé gætt og þeirri grundvallarreglu réttarríkisins sé framfylgt að menn teljist saklausir uns sekt er sönnuð með dómi.“

„Hef valið að trúa þeim og sögu þeirra“

„Það er líka grundvallarmál í réttarríki að hver maður fái að verja æru sína. Þversögnin liggur hins vegar í því að vilji maður sýna fram á að maður sé ekki ofbeldismaður er ekki hjálplegt ærunni að stefna fólki sem ásakar mann um ofbeldi. Ég styð rétt Krosskvennanna til að lýsa opinberlega ofbeldinu sem þær hafa orðið fyrir. Ég hef líka valið að trúa þeim og sögu þeirra,“ skrifar Sigríður í pistli sínum og það eru tvær síðastnefndu setningarnar sem gerðar eru athugasemdir við, með þeim sé Sigríður að taka einarða afstöðu í málinu og lýsi yfir stuðningi við meinta þolendur.

„Að mati umbjóðanda míns fela ummælin í sér grófa árás á æru umbjóðanda míns,“ segir í bréfinu og þar er bent á að það sé hlutverk dómstóla að kveða úr um sekt eða sýknu fólks. 

Krefjast þess að Sigríði verði vikið úr starfi eða veitt áminning

Í bréfinu er þess krafist að biskup ákveði að Sigríður skuli ekki gegna núverandi starfi eða sambærilegu starfi á vegum kirkjunnar til frambúðar. Verði ekki fallist á það er þess beiðst að Sigríði verði veitt áminning. Í öllu falli er þess krafist að Sigríði verði gert að fjarlægja umrædda grein af vefsvæði sínu og að hlekkir inn á síðuna verði fjarlægðir af vefsíðum þjóðkirkjunnar.

Segir Sigríði hafa farið yfir mörk

„Engin viðbrögð hafa borist við bréfinu enn sem komið er,“ segir Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars. „Umbjóðandi minn telur að Sigríður hafi farið yfir leyfileg mörk tjáningarfrelsisins og að það sé ekki við hæfi að starfandi prestar tjái sig með þessum hætti um mál sem eru til afgreiðslu í dómskerfinu.“

Mál Gunnars gegn Vefpressunni, sem rekur Pressuna, fyrrverandi ritstjóra hennar og tveimur konum í Krossinum var þingfest í byrjun aprílmánaðar. „Nú er greinargerðarfrestur að líða, gagnaðilar Gunnars í því máli hafa frest til að skila greinargerð,“ segir Einar Hugi. „Vefpressunni er stefnt til réttargæslu, en þrír eru stefndu í þessu máli; Steingrímur Sævarr Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Pressunnar, og tveir einstaklingar til viðbótar sem komu fram sem talskonur þeirra sem báru Gunnar þessum sökum.“

Ekki tilbúin til að tjá sig um málið

Engin tímamörk eru tiltekin í bréfinu til biskups Íslands, en þar er þess krafist að erindið verði tekið til umfjöllunar við fyrsta hentugleika.

Sigríður segir að sér sé kunnugt um bréfið, en segist að öðru leyti ekki vera tilbúin  að tjá sig um málið að svo stöddu.

Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti.
Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina