Mikil hálka á höfuðborgarsvæðinu

Bíll við bíl á Vesturlandsveginum. Umferðin í höfuðborginni er mjög …
Bíll við bíl á Vesturlandsveginum. Umferðin í höfuðborginni er mjög hæg. mbl.is/Þorsteinn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við hálku á götum höfuðborgarsvæðisins. Vegfarendur eru beðnir um að fara varlega. Það hefur snjóað víðar á Suðvesturlandi. Talsvert snjóaði t.d. á Suðurnesjunum í morgun. Hálka er á Reykjanesbraut.

„Það er gríðarmikil hálka á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir árekstrar hafa orðið en sem betur fer slysalausir,“ segir Kristófer Sæmundsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í morgun varð m.a. fimm bíla árekstur á Reykjanesbraut, árekstur á Víðistaðavegi og víðar. Kristófer segir að borgin sé að salta götur en það sé erfitt þar sem umferðin um helstu leiðir sé mjög þétt.

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé éljabakki við Suðvesturland, sem fari hægt yfir og það megi búast við talsverðum éljagangi fram eftir degi. Síðdegis snúist vindur í norðanátt og þá ætti að létta til.

Snjóað hefur öðru hverju á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga. Björn minnir á að það sé enn vetur og því ekki óeðlilegt að það snjói. „Það má segja að við séum orðin góðu vön,“ segir Björn og minnir í kringum 1980 hafi veturnir ekki verið eins mildir og þeir hafi verið í seinni tíð.

Umferðin er mjög hæg

Snjókoman hófst um svipað leyti og morgunumferðin var að ná hámarki. Umferðin er víða mjög hæg á höfuðborgarsvæðinu. Mbl.is ræddi við vegfaranda sem var á Hafnarfjarðarveginum við Arnarnes á leið til Reykjavíkur. Þar var umferðin búin að vera nánast stopp í um 15 mínútur. Sömu sögu hafa fleiri vegfarendur um höfuðborgarsvæðið sagt í morgun.

Hálka á Reykjanesbraut

Það er hálka á Reykjanesbraut og flestum leiðum á Suðurnesjum og á Kjalarnesi. Hálkublettir eru á Sandskeiði, Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði, einnig eru hálkublettir frá Þjórsá að Markarfljóti. Aðrar leiðir á Suðurlandi eru að mestu greiðfærar.

 Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði en hálkublettir á Vatnaleið, Fróðárheiði og Svínadal.  Aðrar leiðir eru að mestu greiðfærar.

 Á Vestfjörðum er snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og á Kleifarheiði. Ófært er á Dynjandisheiði. Snjóþekja eða hálka er á flestum öðrum leiðum.

 Á Norðurlandi vestra er hálka á Þverárfjalli, Vatnsskarði og  á Öxnadalsheiði en snjóþekja og skafrenningur á Siglufjarðarvegi. Hálka eða hálkublettir eru á flestum öðrum leiðum.

 Norðaustanlands er snjóþekja eða hálkublettir nokkuð víða þó er hálka og smá éljagangur á Víkurskarði og flestum leiðum í kringum Akureyri einnig er hálka í kringum Mývatn.  Ófært á Dettifossvegi.

 Á Austurlandi er þæfingsfærð á Möðrudalsöræfum en snjóþekja á Vopnafjarðarheiði.Hálka er á Fjarðarheiði, Fagradal og Oddskarði. Þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði og Öxi. Ekki eru komnar upplýsingar um færð á Vatnsskarði eystra. Annars eru vegir greiðfærir að mestu á Austurlandi.

 Á Suðausturlandi er krapasnjór frá Mýrdalssandi að Kvískerjum.

Lesandi sendi mbl.is þessa mynd af snjónum og umferðinni í …
Lesandi sendi mbl.is þessa mynd af snjónum og umferðinni í morgun.
Talsvert mikið snjóaði kl. 8 í morgun.
Talsvert mikið snjóaði kl. 8 í morgun. mbl.is/Egill
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert