Bros á hverju andliti á EVE Fanfest

„Það eru um 2000 hátíðargestir sem eru mættir hingað á Fanfest og maður sér bara bros á hverju einasta andliti.“ segir Eldar Ástþórsson, fjölmiðlafulltrúi og verkefnisstjóri markaðsdeildar CCP, um stemmninguna á EVE Fanfest, sem haldin er í níunda sinn þessa dagana. EVE Online fagnar nú 10 ára afmæli sínu.

„Hátíðin hefur heppnast gríðarlega vel og við finnum fyrir mjög mikilli ánægju meðal hátíðargesta,“ segir Eldar.  „Það eru greinilega margir sem mjög ánægðir með þetta og við aðstandendur hátíðarinnar erum það sömuleiðis og það er greinilega að fjölbreytt og góð dagskrá er að falla vel í kramið.“

Mikið hefur verið um dýrðir á hátíðinni og margt um að vera í kringum hana. Til dæmis ákvað par sem kynntist í leiknum að gifta sig í Hörpu á fimmtudaginn var. Eldar segir mörg dæmi um að fólk kynnist og verði vinir í kringum leikinn. „Síðan eru þó nokkur hjónabönd sem hafa myndast í EVE.“

Mikil eftirvænting ríkir hjá gestum hátíðarinnar og erlendum blaðamönnum fyrir ræðu Hilmars Veigars Péturssonar sem haldin verður í kvöld í Eldborgarsal Hörpu. Þar verður ýmislegt markvert kynnt í áformum fyrirtækisins.

mbl.is