Færir EVE-heiminn til stærri hóps

Margir hafa áhuga á EVE-heiminum sem tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur þróað á undanförnum áratug, ekki hafa þó allir tíma eða vilja til að spila leikinn. Besta leiðin til að kynna heiminn, sem orðinn er að stóru vörumerki, fyrir þeim hópi í gegnum sjónvarpsþáttaröð. Þetta segir Torfi Frans Ólafsson, listrænn stjórnandi hjá CCP, um væntanlega sjónvarpsþáttaröð byggða á leiknum sem kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur hefur gert samkomulag um að þróa í samvinnu við CCP. 

Torfi segir sjónvarpsþættina nokkuð einstaka að því leyti að vera byggða á þeim atburðum sem leikendur EVE-online hafi skapað, en heimur EVE-online er gríðarlega stór með yfir 500 þúsund leikendum og keyrður áfram af ofurtölvu sem staðsett er í London. Í raun kallar Torfi EVE-heiminn; vísindaskáldskaparhermi, þar sem eigi sér stað iðnaður, viðskipti, svik, nýting náttúruauðlinda og flest annað sem hægt sé að finna í mannheimum.

Því er af nægu af taka þegar kemur að dramatískum atburðum sem hafi átt sér stað í EVE-heimum en þeim sögum verður nú safnað saman áður en framleiðslan hefst. En auk Baltasars munu handritshöfundarnir Sigurjón Kjartansson, Magnús Viðar Sigurðsson og Ólafur Egilsson koma að þróun sögunnar í samráði við fólk innan CCP sem hefur dýpri þekkingu á EVE heiminum

Mbl.is ræddi við Torfa um væntanlega sjónvarpsþáttaröð en hann segir að vilji fyrirtækisins sé að framleiða sem mest af þáttunum og hægt er hérlendis. Enda séu hér kjöraðstæður hvað landslag varðar auk þess sem mikil þekking hafa skapast í kvikmyndaiðnaðinum hér á landi áundanförnum árum.

mbl.is