Nýr ritstjóri boðar breytingar

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Vikunnar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Vikunnar. Valdís Þórðardóttir

„Ég er mjög spennt og ánægð. Ég var reyndar ekki í þessum gír og hafði ekki séð fyrir mér að fara aftur í ritstjórastól. En mér var boðin þessi staða, í framhaldinu kviknaði eldmóður og ég ákvað að takast á við þetta spennandi verkefni,“ segir Steingerður Steinarsdóttir, nýráðinn ritstjóri tímaritsins Vikunnar.

Steingerður mun hefja störf á fimmtudaginn, en Elínu Arnar, sem áður ritstýrði Vikunni, var sagt upp störfum fyrir skömmu.

Steingerður hefur að undanförnu verið blaðamaður á Gestgjafanum en hún er ekki ókunnug Vikunni, því hún var blaðamaður þar 1998-2006, en tók þá við ritstjórn tímaritsins Hann/Hún til ársins 2008.

Nýir efnisþættir á döfinni

Spurð að því hvort búast megi við breytingum á Vikunni segir Steingerður svo vera. „Já, það má búast við töluverðum breytingum, mig langar til að stokka ýmislegt upp og endurskoða. Það eru ýmsir nýir efnisþættir sem mig langar til að koma að og er í rauninni þegar farin að leggja drög að. Síðan á ég jafnvel von á að við verðum meira í að skoða einstök málefni frá ýmsum sjónarhornum, en leggjum hugsanlega minni áherslu á umfjöllun sem er bundin við einstakar persónur.“

Steingerður lauk námi í hagnýtri fjölmiðlun og hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 1989. Hún hóf ferilinn sem blaðamaður á Þjóðviljanum, hefur starfað á ýmsum tímaritum og unnið við þýðingar, skrif auglýsingatexta og þáttagerð í útvarpi.

Vikan er gefin út af útgáfufélaginu Birtingi og hefur komið út frá árinu 1938. 

mbl.is