Erfitt að skilja hvaða hvatir liggja að baki

Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu öskugígamyndana sem gefur …
Hverfjall er í röð fegurstu og reglubundnustu öskugígamyndana sem gefur að líta á Íslandi og talinn í röð þeirra stærstu sinnar tegundar á jörðinni. mbl.is/Rax

„Við erum að leita að góðri, varanlegri lausn, en sem betur fer eru svona lagað ekki eitthvað sem við erum vön að þurfa að eiga við,“ segir Bergþóra Kristjánsdóttir, starfsmaður Umhverfisstofnunar. Tugir lítra af málningu voru notaðir til skemmdarverka í Hverfjalli í Mývatnssveit og reynist þrautin þyngri að hreinsa ummerkin.

Lögreglan á Húsavík klórar sér í höfðinu yfir spellvirkjunum, sem unnin voru á tveimur af náttúruundrum Mývatnssveitar. Í Grjótagjá var krotað á klettavegginn orðið „cave“ sem er enska fyrir „hellir“ en í gígbotn Hverfjalls stendur flennistórum stöfum „crater“ eða „gígur“.

Mikil fyrirhöfn að baki spellivirkjunum

„Við erum bara svo hissa á þessu. Við skiljum ekki hvaða hvatir eru þarna að baki,“ segir Hreiðar Hreiðarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík. Skemmdarverkin voru tilkynnt lögreglu á föstudaginn var og er talið að þau hafi verið unnin fyrir um 10 dögum síðan.

Hreiðar segir ljóst að mikla fyrirhöfn hafi þurft til að koma þessu í verk. „Þarna eru 400 metrar upp á brún og svo annað eins niður á botn. Þar ofan í er svona 100 metra hár malarhóll þar sem þetta hefur verið gert örugglega með stórri spreykönnu og þrýstikút, eins og notuð er á bílaverkstæðum eða við að mála hús. Hún málar svona 15 cm rönd í einu þannig að það hefur þurft að fara svona 4-6 ferðir upp og niður brekkuna til að skrifa þetta.“

Hver stafur í gígbotninum er um 17 metra hár, þ.e. á hæð við nokkurra hæða blokk. Hreiðar segir erfitt að áætla það fyrir víst en skýtur á að um 60-70 lítra af málningu hafi þurft til verksins. „Þetta hefur tekið góða stund. Það er nú býsna straumur ferðafólks þarna svo menn hafa ekki getað verið að þessu bara þegar þeim sýndist.“

Athyglissýki eða annarlegar hvatir

Hverfjall var friðlýst fyrir tveimur árum síðan, en óháð friðlýsingu eru hvers konar áletranir á náttúrumyndanir óheimilar samkvæmt 76. gr. náttúruverndarlaga, og varðar refsingu ýmist á formi sektargreiðslna eða allt að tveggja ára fangelsis.

Bergþóra, sem er sérfræðingur Umhverfisstofnunar á verndarsvæði Mývatns og Laxár, segir líka erfitt að skilja hvað skemmdarvörgunum gengur til. „Þetta er athyglissýki, eða einhver keppni. Þetta er allavega mjög annarlegt.“ 

Eftir að skemmdarverkin í Hverfjalli og Grjótagjá komu í ljós fór hún um svæðið til að kanna hvort spreyjað hefði verið víðar. „Ég hef leitað í Dimmuborgum, við Kálfastrandarklasana og Leirhnúk. Þetta eru svona líklegustu svæðin en ég hef ekki fundið neitt þar eða verið bent á meira. En klettarnir og hellarnir eru óteljandi svo ég get ekki útilokað að þetta sé á fleiri stöðum.

Þúsundir steina sem búið er að mála

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk fær útrás fyrir hvatir til að skilja eftir sig ummerki og merkja sér náttúruna í Hverfjalli því á tímabili voru áberandi áletranir í gígbotninum sem ferðamenn röðuðu upp með steinum. 

„Við fjarlægðum það allt 2008, rugluðum þá steinunum og þeir hafa varla sést síðan. Það kemur alltaf eins og ein áletrun sem landverðir hafa fjarlægt jafnóðum en það hefur ekki verið stórt vandamál. Þetta er hins vegar af allt annarri stærðargráðu, þetta eru þúsundir steina sem búið er að mála,“ segir Bergþóra.

Hún segir það algjört forgangsmál núna að finna leiðir til að hreinsa ummerkin. „Veggjakrot er auðvitað þekkt vandamál í borgum og það eru til lausnir í efnum spreyjuð er á veggi til að hreinsa þetta, en þá eru yfirleitt notaðar háþrýstidælur.“

Óvíst er hvort sú lausn væri möguleg á Hverfjallinu, enda erfitt að koma vatni að svæðinu. Annar möguleiki væri að grafa upp og velta mölinni við en það gæti þurft að bíða því jarðvegurinn er glerfrosinn. 

„Ég setti niður skilti um daginn og var þá með alveg nýjan járnkarl með mjög góðum oddi og 5 kílóa sleggju og ætlaði ekki að hafa það að gera smá holu því það er allt pinnfrosið. En við ætlum að reyna að klára þetta sem allra fyrst.“

Skemmdarverk í Mývatnssveit

Stafirnir sem spreyjaðir voru á botn gígsins eru um 17 …
Stafirnir sem spreyjaðir voru á botn gígsins eru um 17 metra háir. Ljósmynd/Umhverfisstofnun
Í botni gígsins í Hverfjalli hafa ferðamenn stundum raðað grjóti …
Í botni gígsins í Hverfjalli hafa ferðamenn stundum raðað grjóti til að mynda orð en minna hefur verið um það síðan hreinsað var 2008. Skemmdarverkin nú eru mun umfangsmeiri. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
mbl.is