Stórt skref í mannréttindabaráttunni

Grafreitur Siðmenntar.
Grafreitur Siðmenntar.

„Ég held að fólk átti sig betur þegar lengra líður að þetta er verulega stórt skref í mannréttindabaráttunni,“ segir Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, í samtali við mbl.is en félagið fékk í dag formlega skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag, fyrst slíkra félaga hér á landi, í samræmi við lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög sem samþykkt voru á Alþingi 30. janúar síðastliðinn.

Bjarni segir aðspurður að síðan Siðmennt hafi ákveðið að fara þá leið að sækjast eftir því að fá skráningu sem veraldlegt lífskoðunarfélag hafi það verið meginmarkmið félagsins. Um mikil tímamót sé því vissulega að ræða fyrir það og mannréttindabaráttu almennt. „Það hafa verið hæðir og lægðir í þessu. Á tímabili vorum við næstum búin að gefast upp en fengum síðan góða hvatningu.“

Félagar í Siðmennt eru um 300 og greiða nú ígildi sóknargjalda til ríkisins en áður til Háskóla Íslands þar til lögum þar um var breytt. Í kjölfar skráningar Siðmenntar sem veraldlegs lífskoðunarfélags til jafns við trúfélög geta félagsmenn hins vegar skráð sig formlega í félagið og renna þá slík gjöld vegna þeirra til þess.

Spurður hvaða þýðingu þetta hafi fyrir Siðmennt segir Bjarni að það sem skipti auðvitað mestu máli sé sú viðurkenning sem skráning félagsins sem veraldlegs lífskoðunarfélags feli í sér. Hins vegar muni skráningin vissulega styrkja stoðir Siðmenntar fjárhagslega en starfsemi félagsins hafi til þessa að nánast alfarið með sjálfboðastarfi.

Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar.
Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert