Flugdólgur handtekinn á Akureyri

Konan var handtekinn við komuna til Akureyrar.
Konan var handtekinn við komuna til Akureyrar. Morgunblaðið/Ómar

Kona á fimmtugsaldri var handtekin við komu til Akureyrar eftir flug frá Reykjavík með Flugfélagi Íslands um klukkan 14:00 í dag. Að sögn varstjóra hjá lögreglunni á Akureyri lét konan ófriðlega í fluginu og fór ekki eftir fyrirmælum. Þá þurfti að loka klósetti flugvélarinnar þegar flugvélin flaug suður að nýju.

„Einn flugfarþegi var ölvaður og lét ófriðlega. Hún var sífellt á ferðinni, æddi á klósettið og reif allt þar. Mér skilst að þurft hafi að loka klósettinu á suðurleiðinni,“ segir Guðmundur Svanlaugsson varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri.

Þá segir hann að konan hafi neitað að setjast í lendingu. „Hún var það erfið að ákveðið var að hringja í lögreglu,“ segir Guðmundur.

Konan var handtekinn eftir lendinguna og situr í fangaklefa. Að sögn Guðmundar vill flugstjóri kæra framferði konunnar vegna ógnar við flugöryggi. „Flugstjórinn segir að svona framkoma sé litin alvarlegum augum," segir Guðmundur.

Hann segir að fátítt sé að fólk láti ófriðlega í flugi innanlands og að hann viti einungis um eitt annað tilvik þar sem flugfarþegi hefur verið handtekinn eftir flug til Akureyrar.   
     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert