Stjórnmálin eins og Dallasþáttur

Miðvikudagskvöldið 6. maí 1981 var ekkert venjulegt miðvikudagskvöld. Þá hófust hér sýningar á sjónvarpsþáttum um fjölskyldu nokkra í suðurríkjum Bandaríkjanna sem hafði lifibrauð sitt af olíuviðskiptum og nautgriparækt. Þetta var Dallas, einn vinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma.

Næstu árin fylgdist landinn heillaður með ríkmannlegu lífi Ewing-fjölskyldunnar og hneykslaðist óspart á skúrkinum JR. Tengsl persónanna voru flókin í augum margra og því brá Morgunblaðið á það ráð að birta skýringarmynd þar sem þeim voru gerð ítarleg skil. 

Ekkert þýddi að halda mannamót á miðvikudagskvöldum, þá voru allir heima hjá sér að horfa á Dallas, en þá var reyndar best að hringja langlínusamtöl því ekkert álag var á símkerfið. 

Þegar hlé var gert á sýningum sendu ófáir lesendabréf til Morgunblaðsins þar sem þess var krafist að þeir kæmu aftur á dagskrá hið snarasta.

Reyndar voru ekki allir á sömu skoðun. Aðrir lesendur blaðsins vöruðu við því að hugmyndir fólks gætu spillst af áhorfinu og að þættirnir græfu undan heilbrigðu fjölskyldulífi.

Um áramótin voru síðan seldir Dallasflugeldar og haldin var Dallashelgi á Hótel Esju þar sem meðal annars var boðið upp á JR tómatsúpu, fyllta kjúklinga-Sue Ellen og Lucy-ostaköku.  Dallas-sófasettið mátti fá fyrir 19.980 krónur og prófkjörum stjórnmálaflokkanna og störfum ríkisstjórnarinnar var líkt við besta Dallasþátt.

mbl.is

Bloggað um fréttina