Heimilislausum virðist fjölga

Í fyrra var mönnum vísað 24 sinnum frá Gistiskýlinu í Þingholtsstræti þegar húsið var orðið fullt en bara í síðastliðnum aprílmánuði voru frávísanir 63 talsins og tæplega þrjátíu í janúarmánuði. Þetta segir Þórir Haraldsson, yfirmaður í Gistiskýlinu, en hann segir ýmislegt geta valdið aukningunni.

Þórir bendir á háan húsnæðiskostnað og fjölgun erlendra verkamanna sem hafi lent í ógöngum hér á landi sem hluta af vandanum en einnig að nú sé eins og langtímaáhrif kreppunnar séu að koma í ljós. Vanalega er meiri aðsókn í gistingu fyrir heimilislausa yfir sumarmánuðina og því er þessi mikla eftirspurn eftir húsaskjóli einnig óvenjuleg hvað það varðar og nú sé farin að myndast biðröð fyrir utan húsnæðið áður en opnað er kl. 17.

Þórir segir að lögreglan hafi að undanförnu oft þurft að hýsa menn sem vísað hafi verið frá Gistiskýlinu en 7 heimilislausir gistu fangaklefa á aðfaranótt laugardags að eigin ósk þar sem þeir áttu ekki önnur hús að venda. 

Samhjálp rekur Gistiskýlið í samvinnu við Reykjavíkurborg fyrir heimilislausa einstaklinga en þar eru tuttugu rúm til ráðstöfunar. Skýlið er opið frá klukkan 17.00 til 10 næsta dags alla daga ársins, þar fá menn hrein rúm og hreina bað- og þvottaaðstöðu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert