Einn í tjaldi á Skeiðarársandi

Horft niður á sandana við ósa Skeiðarár.
Horft niður á sandana við ósa Skeiðarár. mbl.is/Rax

Mjög erfiðar aðstæður voru á sjó hjá róðrakappanum Guðna Páli Viktorssyni í gær. Vegna brims og mikillar ölduhæðar komst hann ekki alla leið á áfangastað við Alviðruhöfða, heldur dró kajakinn í land á Skeiðarársandi. Þar situr hann nú einn í tjaldi sem lamið er utan af sandstormi, og bíður af sér veðrið.

Það blæs ekki byrlega fyrir Guðna Páli, sem lagði upp fyrir viku í hringferð umhverfis Ísland. Ferðina kallar hann Lífróður, til styrkar Samhjálp. Takist honum upp verður Guðni Páll annar Íslendingurinn til að ljúka þessari þrekraun og áætlar hann að róðurinn geti tekið um tvo mánuði, en veður og sjóalag hefur gert honum erfitt fyrir fyrstu vikuna.

Eftir tveggja daga bið við Ingólfshöfða um helgina vegna veðurs hélt hann förinni áfram í gær. Stefnan var tekin á Alviðruhamarsvita, við ósa Kúðafljóts í Álftaveri. Það fór þó ekki svo að hann næði á áfangastað því þegar leið á daginn bætti í vindinn og ölduhæðin óx.

Með nógan mat

Þegar hann átti um 20 km eftir sá hann sér þann kost vænstan að draga í land, á svörtum söndunum við ósa Skeiðarár. Þar skaut hann upp tjaldi og bíður af sér veðrið. Hann segist vera með nóg af mat en getur ekki hlaðið raftækin og þarf því að spara rafhlöður í símanum, sem dæmi. Hann telur að vindhraðinn sé um 15-20 m/s og er talsvert sandfok.

Aðstæðurnar eru því ekki eins og best verður á kosið en Guðni Páll bíður veðrið af sér af stökustu ró. Vonast var til að hann næði til Vestmannaeyja um helgina, en miðað við veðurútlit gæti farið svo að hann verði fastur á Skeiðarársandi til fimmtudags. 

Hér að neðan má sjá Guðna Pál æfa sig á kajaknum. Áheitasöfnun Guðna Páls má leggja lið í gegnum heimasíðu hringferðarinnar, Lífróður Samhjálpar.

Guðni Páll Viktorsson.
Guðni Páll Viktorsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is