Sigurður átti hugmyndina

Sigurður Valtýsson og Lýður Guðmundsson.
Sigurður Valtýsson og Lýður Guðmundsson. mbl.is/Kristinn

Sigurður Valtýsson, fyrrverandi forstjóri Exista, sagðist við aðalmeðferð yfir þeim Lýði Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni í morgun hafa átt hugmyndina að þeim viðskiptum sem urðu í kjölfar hlutafjáraukningar Exista í desember 2008. Sérstakur saksóknari ákærði Lýð fyrir hans þátt í viðskiptunum.

Skýrslutökum fyrir dómi er lokið og fá saksóknari og verjendur daginn í dag til að undirbúa málflutning sem fram fer í fyrramálið. Fyrrverandi forstjórar Exista gáfu skýrslu í dag ásamt fjármálastjóra félagsins og stjórnarmönnum. Einnig kom fyrir dóminn lögmaður hjá Logos og forstöðumaður fyrirtækjaskrár, en gerð var grein fyrir skýrslu þess síðastnefnda í frétt á mbl.is í morgun.

Í skýrslutöku yfir Sigurði Valtýssyni var það rifjað upp að stjórn Exista var á hluthafafundi í október 2008 fékk heimild til að hækka hlutafé. Hins vegar hafi verið tekið fram að ekkert benti til að farið yrði í hlutafjárhækkunina á næstunni. „Við fengum víðtækar heimildir á þessum fundi til að gera það sem við töldum rétt til að bjarga félaginu,“ sagði Sigurður.

Þá var hann spurður út í hver hafi komið með þá hugmynd að greiða fyrir 50 milljarða hluta í Exista með einum milljarða hluta. „Ég held að ég hafi komið þeirri hugmynd á framfæri á sínum tíma, einhvern tíma í nóvember.“ 

Það eru þessi viðskipti sem Lýður er ákærður fyrir en í ákæru segir að Lýður hafi sem stjórnarmaður í einkahlutafélaginu BBR brotið vísvitandi gegn ákvæðum hlutafélagalaga um greiðslu hlutafjár með því að greiða Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta. Greitt var fyrir hlutina, sem voru að nafnvirði 50 milljarðar króna, með einum milljarði hluta í einkahlutafélaginu Kvakki, sem metnir voru á einn milljarð króna.

Þetta brýtur í bága við 16. grein hlutafélagalaga en þar segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnvirði, og er það ákvæði til að koma í veg fyrir óeðlilega rýrnun hlutafjárins og vernda bæði hluthafa félagsins og kröfuhafa.

Fordæmi fyrir sömu leið

Verjandi Lýðs spurði Sigurð út í það hvernig þessi leið var hugsuð. „Ég leit svo á að þetta væri eina leiðin til að koma réttmætum verðmætum á milli tveggja aðila. Exista væri að selja 50 milljarða hluta gegn þessu gjaldi og það væru sambærileg verðmæti,“ sagði Sigurður en á þessum tíma staðfesti Deloitte að Exista væri í raun verðlaust félag.

Sigurður sagði að fordæmi væru fyrir þessari leið en hún hafi verið farin hjá Opnum kerfum og Skýrr árið 2003. Þá hafi verið gefin út ný hlutabréf og skiptigengið var 0,3. „Ég fæ þessa breiðu hugmynd um að menn skiptist á hlutabréfum á sambærilegu verði.“

Svo virtist sem það hafi komið nokkuð flatt upp á Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, að Sigurður segðist hugmyndasmiðurinn. Hann spurði Sigurð því út í vitnisburð hans hjá sérstökum saksóknara þar sem Sigurður sagði hugmyndina hafa komið frá Lýði.

Sigurður leiðrétti saksóknarann og benti honum á að ekki hefði verið spurt beint um hugmyndina heldur hafi verið um fjórar eða fimm spurningar að ræða í beit og hafi hann svarað þeirri síðustu. Þar hafi svarið verið Lýður. Það hafi hins vegar ekkert haft með hugmyndina að útfærslunni að gera.

Ólafur spurði þá hvort það hafi komið nokkurn tíma komið fram við skýrslutökur að hugmyndin hafi verið Sigurðar. Nefndi Sigurður þá rannsóknarlögreglumann sem hafi sagt í lok skýrslutöku: „Sigurður minn, ein samviskuspurning að lokum. Hver átti hugmyndina?“ Sigurður sagðist hafa svarað þeirri spurningu samviskusamlega og viðurkennt að hafa komið með hugmyndina sjálfur.

Aldrei kynnst öðrum eins fundi

Eins og komið hefur fram var ekki gerð athugasemd við þessa útfærslu fyrr en fyrirtækjaskrá afturkallaði tilkynningu um hlutafjáraukninguna hálfu ári síðar. „Þeir sögðu að þetta hefði sloppið í gegn fyrir handvömm ólöglærðs starfsmanns sem var á vakt,“ sagði Sigurður sem fundaði með fyrirtækjaskrá vegna málsins. „Það sem kom fram á fundinum var mjög vanstillt viðhorf starfsmanna fyrirtækjaskrár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins fundi. Þeir töldu sig hafa verið blekkta og ætluðu að afturkalla tilkynninguna.“

Sigurður sagði það hins vegar af og frá að nokkrum blekkingum hefði verið beitt. Bæði hafi komið skýrt fram í gögnum sem send voru fyrirtækjaskrá og Kauphöllinni hvaða leið væri verið að fara. Einnig hafi það komið skýrt fram í tilkynningum til fjölmiðla. Öllum hafi mátt vera ljóst að verið væri að greiða 50 milljarða hluti í Exista með einum milljarði hluta í Kvakki, sem verðmetinn var á einn milljarð. 

Sem dæmi um það nefndi Sigurður að hann hefði orðið frekar ósáttur ef Exista hefði þurft að greiða 250 milljónir króna í stimpilgjöld vegna þessa. „Við greiddum fimm milljónir í stimpilgjald sem er stofninn af einum milljarði,“ sagði hann og að það hafi verið ákvörðun sýslumanns. 

Báðir sögðust forstjórarnir hafa litið svo á að skýrsla frá Deloitte vegna hlutafjáraukningarinnar hafi verið sérfræðiskýrsla í skilningi hlutafélagalaga, enda hafi ekki annað komið fram. Menn hafi treyst sérfræðiáliti frá löggiltum endurskoðanda Deloitte og því í raun aldrei efast um lögmæti viðskiptanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert