Blekkingarleikur fyrir opnum tjöldum

Lýður og Bjarnfreður.
Lýður og Bjarnfreður. Árni Sæberg

Traust almennings á íslenska hlutabréfamarkaðnum minnkaði, brotið var bíræfið, stórfellt og ekki hægt að brjóta með alvarlegri hætti gegn hlutafélagalögum. Ef einhvern tíma ætti að fullnýta refsirammann væri það í þessu tilviki. Þetta sagði sérstakur saksóknari við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær.

Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni lauk í gær. Finna má fréttir af aðalmeðferðinni, skýrslutökum yfir ákærðu og vitnum í knippi hér. Ákæruna í málinu má svo lesa hér.

Í inngangi eru rifjuð upp orð Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, sem hann viðhafði, eða sambærileg orð, í málflutningsræðu sinni. Einmitt vegna þessarar orðræðu var þeim mun sérstakara þegar saksóknari krafðist 18 mánaða fangelsisvistar yfir Lýði. Brotin sem Lýður er ákærður fyrir varða hins vegar allt að tveggja ára fangelsi. 

Stjórnin mötuð af röngum upplýsingum

Eins og fram kemur í ákæru er Lýður ákærður fyrir að hafa sem stjórnarmaður í BBR keypt nýtt hlutafé í Exista á undirvirði, eða 50 milljarða hluta fyrir 1 milljarð hluta í félaginu Kvakki. Það telst brot gegn 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög þar sem segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnvirði.

Sérstakur saksóknari sagði ljóst að Lýður hafi ráðið för frá upphafi. Hann var starfandi stjórnarformaður Exista og hafi því verið beggja vegna borðsins. Með blekkingum hafi Lýði tekist að fá stjórn Exista til að samþykkja hlutafjárhækkun upp á 50 milljarða hluta, ganga til samninga við hann sjálfan og skrifa undir greiðslu upp á 1 milljarð hluta í Kvakki fyrir 50 milljarða hluta.

Hann benti á að stjórnarfundurinn þar sem þessar ákvarðanir voru teknar hafi verið boðaður með stuttum fyrirvara, hann hafi verið haldinn í síma og stjórnarmenn hafi fengið gögn seint í hendur. Stjórnarmönnum hafi því ekki gefist tóm til að kynna sér málið til hlítar. Þess í stað hafi þeir verið mataðir af röngum upplýsingum sem hafi leitt til þess að stjórnin hafi tekið ákvörðun um hlutafjárhækkunina og samninginn við BBR á röngum forsendum. Og þó svo Lýður hafi vikið sæti á fundinum þá leysi það hann ekki undan ábyrgð á ákvörðuninni.

Þrjú ljón í veginum

Sérstakur saksóknari sagði hlutafjárhækkunina og viðskiptin við BBR ólögmæt. Þrátt fyrir að tilkynningar hafi verið sendar til fyrirtækjaskrár, kauphallarinnar og fjölmiðla þar sem viðskiptin eru tilgreind hafi það engin áhrif í málinu heldur sýni aðeins hversu ósvífið brotið var. Vísvitandi hafi verið látið reyna á að þetta myndi heppnast. Blekkingarleikurinn hafi verið leikinn fyrir opnum tjöldum.

Og ástæðan fyrir því að Lýður kom þessu í kring. Sérstakur sagði ástæðuna þá að Lýður og Bróðir hans voru að missa yfirráð yfir Exista til Kaupþings. Með þessum hætti hafi þeim tekist að þynna út hlut Kaupþings og halda yfirráðum. Þrjú ljón hafi verið í veginum; stjórn Exista, fyrirtækjaskrá og Kaupþing. Stjórnin hafi verið blekkt, fyrirtækjaskrá hafi verið blekkt og Kaupþing reyndi að gera athugasemdir en hvorki Kauphöllin né fyrirtækjaskrá tóku þær til greina.

Sérstakur saksóknari sagði að um tilhæfulausa hlutafjárhækkun upp á 50 milljarða hluta hafi verið að ræða og það hafi ekki verið til að bæta hag Exista heldur til að tryggja yfirráð Lýðs og Ágústs Guðmundssonar. Um sé að ræða stórfellt brot og hæfileg refsing sé 18 mánaða fangelsi.

Lýður ákærður sem kaupandi en ekki seljandi

Næstur tók Gestur Jónsson, verjandi Lýðs til máls. Snemma í ræðu sinni sagði Gestur: „Eftir ræðu saksóknara er ég í svolitlum vanda. Skjólstæðingur minn er ákærður fyrir kaup en saksóknari sækir að honum með umfjöllun um þann sem seldi.“ Þar vísaði Gestur til þess að Lýður er ákærður, skv. ákæruskjali, fyrir að hafa greitt undirverð fyrir bréfin í Exista en sérstakur saksóknari hafi í ræðu sinni látið eins og Lýður væri ákærður fyrir að selja bréfin á undirverði.

Gestur gagnrýndi einnig ræðu sérstaks saksóknara og sagði bununa hafa staðið út úr honum án þess að vísað væri til skjala eða framburða vitna. Sönnun sé ekki fengin með því að slengja fram ásökunum eins og þær séu algild sannindi. Þannig hafi sérstakur saksóknari skautað framhjá viðurkenndum aðferðum við sönnun og með óvenjulegum hætti.

Hann sagði ljóst að Lýður hafi vikið sæti í stjórn Exista þegar ákvörðun um hlutafjárhækkunina og viðskiptin við BBR voru samþykkt. Enda sé Lýður ekki ákærður fyrir að hafa setið þeim megin borðsins. Hann sé hins vegar ákærður fyrir að hafa greitt minna en nafnverð fyrir hlutabréfin. Það gangi ekki upp þar sem það sé seljandans að bera ábyrgð á söluandvirði bréfanna. Því hafi sérstökum saksóknara borið að ákæra stjórn Exista sem tók ákvörðun um að ganga til samninga við BBR.

Gestur sagði að ef sérstakur saksóknari hefði ákært stjórn Exista vegna ákvörðunar um að selja bréfin á undirverði hefði hugsanlega verið hægt að ákæra Lýð fyrir hlutdeilt í verknaðinum. Þar sem stjórn Exista hafi hins vegar ekki verið ákærð sé hins vegar ekki einu sinni hægt að sakfella Lýð fyrir hlutdeildarbrot.

„Skyldan til að fara að lögum við sölu hlutafés í Exista hvíldi á þeim sem komu fram fyrir hönd félagsins, ekki öðrum,“ sagði Gestur og bætti við að engin vafi léki á því að Lýði yrði ekki gerð refsing fyrir athafnir sem hann vann fyrir BBR í viðskiptum við Exista. Ábyrgðin liggi hjá stjórn Exista en ekki viðsemjandanum. Þetta sé kristaltært.

Ólafur Þór Hauksson ásamt aðstoðarfólki sínu.
Ólafur Þór Hauksson ásamt aðstoðarfólki sínu. Morgunblaðið/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert