Varð frá að hverfa sökum veikinda

Guðmundur Stefán Maríusson ásamst Ingólfi Geir Gissurarsyni í dag.
Guðmundur Stefán Maríusson ásamst Ingólfi Geir Gissurarsyni í dag.

Guðmundur Stefán Maríusson er hættur við að reyna að ná toppi Everest-fjalls vegna veikinda. Félagi hans, Ingólfur Geir Gissurarson, mun aftur á móti halda ótrauður áfram.

Á síðunni Everest 2013, þar sem fjallað er um leiðangur þeirra félaga, kemur fram, að eftir seinni aðlögunarferðina upp í hlíðar Everest hafi Guðmundur ákveðið að hætta við. Hann veiktist í öðrum búðum og á leið upp í þriðju búðir fékk hann sáran brjóstverk sem hvarf ekki.

„Ef ég væri 25 árum yngri þá hefði ég haldið áfram en maður verður að hafa skynsemina ofar keppnisskapinu,“ er haft eftir Guðmundi á síðunni.

Þá segir að Guðmundur þakki fyrir allan stuðninginn sem hann og Ingólfur hafi fengið.

Í dag hélt hann niður á við í áttina að Pheriche þar sem hann gistir í nótt. Þaðan heldur hann til Namche Bazar þar sem hann gistir og loks áfram til Lukla þaðan sem flogið er til Katmandu. Í gærkvöldi var kveðjustund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert