Mjölnismenn sigursælir á Englandi

Liðsmenn keppnisliðs Mjölnis. Frá vistri: Bjarni Kristjánsson, Diego Björn Valencia, …
Liðsmenn keppnisliðs Mjölnis. Frá vistri: Bjarni Kristjánsson, Diego Björn Valencia, Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson, Magnús Ingi Ingvarsson og John Kavanagh, yfirþjálfari liðsins. mynd/Jón Viðar Arnþórsson

„Við fórum fyrir nokkrum dögum með fimm stráka úr keppnisliði Mjölnis til Hull á Englandi til að keppa,“ segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis.

„Við unnum þrjá bardaga af fimm og Bjarni Kristjánsson tapaði með einu stigi. Bjarki Ómarsson tapaði í sínum fyrsta bardaga á móti þyngri og miklu reyndari andstæðingi, en bardaginn þeirra var valinn bardagi kvöldsins. Bjarki er 18 ára gamall og stóð sig mjög vel þannig að hann á eftir að gera góða hluti í þessari íþrótt,“ segir Jón Viðar.

Bardagaíþróttir ekki ofbeldi

Aðspurður blæs Jón Viðar á ásakanir um að bardagaíþróttir gangi bara út á að kenna mönnum að beita ofbeldi. „Þetta er náttúrlega bara íþrótt eins og flestir eru farnir að átta sig á. Þegar tveir menn fara inn í hringinn þá er það eitthvað sem þeir vilja báðir gera, þeir vilja takast á. Ofbeldi er þegar einhver er beittur harðræði sem vill það ekki, þarna eru allir meðvitaðir um hvað þeir eru að fara út í,“ segir Jón Viðar. „Það geta allir sem eru ekki að glíma við einhver meiðsli komið á grunnnámskeið í Mjölni og byrjað að æfa íþróttina.“

Keppnislið Mjölnis er hópur sem æfir saman blandaðar bardagaíþróttir (e. Mixed martial arts, MMA) þrisvar til fjórum sinnum í viku með það að markmiði að verða atvinnumenn í greininni.

Slapp frá víni og stefnuleysi

Einn fimmenninganna sem fóru til Englands er Bjarki Þór Pálsson. Hann segir íþróttina hafa gert mikið fyrir hann og þá stefnu sem hann tók í lífinu.

„Ég hef æft þetta í þrjú ár í september og stefni á minn fyrsta atvinnumannabardaga einmitt í september. Þetta sport er eiginlega búið að bjarga mínu lífi. Ég var bara drekkandi og stefnulaus í lífinu áður en þetta kom til. Maður tengist félögum sínum líka á svo allt annan hátt þegar við upplifum svona sameiginlegan háska. Það myndast einhver samkennd sem ég hef aldrei upplifað áður. Pabbi kom með mér á einn bardaga og ég tengdist honum á alveg nýjan hátt. En fólk sér þetta ekki. Það er enginn þvingaður í þetta, þú þarft að gefa þig fram til að taka þátt í þessu. Annars var ferðin til Englands alveg frábær. Eini gallinn var að við fundum bara einn stað sem seldi þokkalega hollan mat í landinu, þannig að við borðuðum mjög oft þar,“ segir Bjarki Þór.

„Bardagarnir gengu mjög vel hjá okkur. Ég vann minn bardaga og Diego og Magnús Ingi bróðir minn líka. Bardaginn hjá Bjarna tapaðist naumlega, enda var hann að keppa við mjög reyndan andstæðing, og bardaginn hjá nafna mínum, Bjarka Ómarssyni, var rosalega góður, þótt hann hafi ekki unnið hann. En víkingarnir fóru og náðu í það sem þeir ætluðu að sækja,“ segir Bjarki Þór og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert